Fréttir

Hafa þörungar í fóðri nautgripa áhrif á kjötið og mjólkina sem frá þeim koma?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Verkefnið SeaCH4NGE leitast við að svara þessari spurningu.

Tvær fóðurtilraunir með mjólkurkúm annars vegar og nautgripum hins vegar voru framkvæmdar hjá Háskólanum í Reading, Bretlandi, seinni hluta þessa árs. Báðum þessum fóðurtilraunum er nýlega lokið og starfsfólk efnadeildar Matís keppist við að mæla efnainnihald afurðanna.

Á næstu dögum verða einnig framkvæmdar rannsóknir á bragði og áferð afurðanna. Skynmat er framkvæmt bæði á mjólkurafurðum og kjötinu. Fyrstu niðurstöður úr mjólkurrannsókninni sem framkvæmd var við Háskólann í Reading virðast einkar spennandi. Glöggir neytendur gætu ef til vill fundið örlítinn bragðmun á mjólkurvörum af þessum toga ef slíkar vörur komast á markað. Í vikunni bárust okkur hjá Matís líka margir kassar af kjöti úr fóðurtilrauninni sem verður nýtt til að kanna hvort munur finnist einnig í kjötinu!

Rannsóknarteymið í SeaCH4NGE hópnum bíður spennt eftir að sjá og taka saman allar niðurstöður mælinga og rannsókna úr verkefninu sem lýkur nú um áramótin. 

Hér að neðan má sjá svipmyndir frá rannsóknarvinnunni sem nú stendur yfir.