Fréttir

Hagræðing í rekstri með bættri vatnsnotkun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Rekstrarfélagið Eskja hafði forgöngu um verkefni sem snéri að því að kanna hvort hægt væri að bæta vatnsnotkun í fiskvinnslum. Í forverkefninu var grunnupplýsinga um vatnsnotkun í fiskvinnslu auk lífrænna efna sem tapast í frárennslinu.

Með bættri vatnsnotkun er hægt að ná fram hagræðingu í rekstri og auka virði framleiðslunnar með nýtingu aukaafurða úr frárennsli vinnsluvatns. Vatnsnotkun á Íslandi er mun meiri en í nágrannalöndum. Reglugerðir setja strangari skilyrði með auknum skorðum á losun á úrgangi og sóun á vatni. Kröfur og reglugerðir koma til með að herðast þegar kemur að vatnsnotkun og losun frárennslis eftir að framkvæmdatímabil vatnatilskipunarinnar tekur gildi 2016. Með innleiðingu á bættu verklagi og uppsetningu á búnaði má minnka vatnsnotkun töluvert og auka nýtingu hráefna sem tekin eru til fiskvinnslu.

Staða þekkingar var könnuð m.t.t fyrrgreindra atriða til að greina ávinning af hreinni framleiðslutækni í fiskvinnslu. Með hreinni framleiðslutækni að leiðarljósi voru tilgreindar aðferðir og tillögur að endurbótum á vinnsluferlum með áherslu á bolfiskvinnslu – sem aðgengilegar eru í Matís skýrslu 39-12. Afrakstur þessa verkefnis gefur til kynna að hægt er að gera betur til að minnka sóun á vatni og nýta lífræn efni sem tapast í frárennslinu.

Aukinn sparnaður eða aukin arðsemi í rekstri getur falist í bættri vatnsnotkun sem afrakstur af fjárfestingu á nýjum búnaði og bættum verkferlum. Reikna má með að tækjaframleiðendur geti unnið að því að þróa hagkvæma lausnir fyrir fiskvinnslur. Leiða má að því líkum að til mikils sé að vinna við að einangra þær aukaafurðir sem tapast með staðbundnu vinnsluvatni.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.