Fréttir

Heimsfrægir kokkar á Saltfiskviku

Í gær var Saltfiskvika formlega sett við skemmtilega athöfn í Salt eldhúsi við Þórunnartún. Frú Eliza Reid, verndari kokkalandsliðsins og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, voru viðstödd. Meistarakokkar frá Ítalíu, Spáni, Portúgal og úr íslenska kokkalandsliðinu töfruðu fram fjölda ólíkra og gómsæta rétti þar sem saltfiskur var í öndvegi.

Markmiðið með Saltfiskvikunni er að vekja athygli á þeirri sælkeraafurð sem saltfiskurinn er. Gestakokkarnir Carlota Claver frá Spáni, Diogo Rocha frá Portúgal og Lorenzo Alessio frá Ítalíu munu elda á nokkrum þeirra 13 veitingastaða sem taka þátt í Saltfiskviku.

Munu þau kynna hvernig hægt er að matreiða saltfisk hvert með sínu sniði en öll eiga þau það sameiginlegt að vera mikilsmetnir kokkar sem leggja mikla áherslu á saltfisk og koma frá löndum þar sem saltfiskurinn er í hávegum hafður.

Frú Eliza Reid og Kristján Þór Júlíusson gæddu sér á gómsætum saltfiskréttum.

Ítalski Michelin kokkurinn Lorenzo Alessio mun í dag elda saltfisk fyrir leikskólabörn á leikskólanum Laufásborg, þar sem börnin munu njóta saltfiskmáltíðar á heimsmælikvarða.

Saltfiskvika stendur til 15. september, en að henni standa; Matís, Íslandsstofa, Kokkalandsliðið og Félag íslenskra saltfiskframleiðenda.

Sjá nánar um íslenska saltfiskinn og Saltfiskvikuna á www.saltfiskvika.is.

Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri Saltfiskviku, ásamt Kristni Björnssyni hjá Íslandsstofu.

Diogo Rocha er þekktur matreiðslumaður í Portúgal.