Ísland sem stórt hafríki, fremur en smátt eyríki, á mikila möguleika í forystu verðmætasköpunar innan bláalífhagkerfisins. „Ekki er nóg með að við nýtum auðlindina mjög vel, heldur sköpum við gæðahráefni og látum mjög lítið fara til spillis borið saman við aðrar þjóðir. Forskot Íslands á þessu sviði nær ekki aðeins til hefðbundins sjávarfangs heldur ekki síður til nýtingar sjávarauðlinda til framleiðslu fæðubótarefna, lækningavara og snyrtivara svo nokkur dæmi séu nefnd. Þekking Íslands nær yfir alla virðiskeðju sjávarfangs og styrkleiki okkar á þessu sviði er eitthvað sem við gætum nýtt mun betur, auk tækifæra tengdra öðrum lífverum, t.d. þörungum,“ segir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís í nýlegu viðtali við Morgunblaðið.
Í viðtalinu ræðir Sveinn sérstöðu Íslands og bendir á hversu lítið aðrar þjóðir ná að nýta bláa lífhagkerfið: „Með lífhagkerfinu er átt við þann hluta hagkerfisins sem byggir á lifandi og endurnýjanlegum auðlindum, og nær bláa lífhagkerfið yfir allar þær lifandi auðlindir hafsins sem við nýtum. Bláa hagkerfið er vannýtt víða um heim og þaðan koma t.d. minna en 5% allra matvæla á meðan meira en 95% matvæla verða til á landi –og það þrátt fyrir að vötn og höf þeki meira en 70% af yfirborði jarðar.“
Sveinn segir sérkenni Íslands m.a. birtast í því að þar hefur hlutföllunum verið snúið við og um 80-90% af öllum matvælum sem landið framleiðir komi úr hafinu.
Sveinn hvetur bæði stjórnvöld og atvinnulíf til að skoða mjög vandlega „að nota t.d. þá þekkingu sem býr í íslenskum sjávarútvegi til að stórbæta vinnslu, veiðar og markaðssetningu víða um heim. Í öllum heimsálfum megi finna lönd sem hafa alla burði til að nýta auðlindir sjávar mun betur og eru stödd þar sem Ísland var fyrir 30 eða 40 árum. Að taka þátt í því að færa sjávarútveg þessara þjóða inn í nútímann myndi ekki aðeins vera gott viðskiptatækifæri heldur gæti líka aukið hróður lands og þjóðar.”
Að mati Sveins ættu Íslendingar „að samhæfa stefnuna í sjávarútvegsmálum, utanríkismálum og viðskiptamálum, og ráðast í tangarsókn. Núna er einmitt rétti tíminn enda er því spáð að bláa lífhagkerfið muni vaxa gríðarlega og að um allan heim verði miklu fjármagni varið í þennan hluta atvinnulífsins. Ísland þyrfti að vera í fararbroddi í þessari þróun, því annars er hætta á að við drögumst afturúr.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á sjávarútvegsvef Morgunblaðsins 200 mílum.