Fréttir

Hjálpum til við nútímavæðingu

Ísland sem stórt hafríki, fremur en smátt eyríki, á mikila möguleika í forystu verðmætasköpunar innan bláalífhagkerfisins. „Ekki er nóg með að við nýtum auðlindina mjög vel, heldur sköpum við gæðahráefni og látum mjög lítið fara til spillis borið saman við aðrar þjóðir. Forskot Íslands á þessu sviði nær ekki aðeins til hefðbundins sjávarfangs heldur ekki síður til nýtingar sjávarauðlinda til framleiðslu fæðubótarefna, lækningavara og snyrtivara svo nokkur dæmi séu nefnd. Þekking Íslands nær yfir alla virðiskeðju sjávarfangs og styrkleiki okkar á þessu sviði er eitthvað sem við gætum nýtt mun betur, auk tækifæra tengdra öðrum lífverum, t.d. þörungum,“ segir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís í nýlegu viðtali við Morgunblaðið.

Í viðtalinu ræðir Sveinn sér­stöðu Íslands og bend­ir á hversu lítið aðrar þjóðir ná að nýta bláa líf­hag­kerfið: „Með líf­hag­kerf­inu er átt við þann hluta hag­kerf­is­ins sem bygg­ir á lif­andi og end­ur­nýj­an­leg­um auðlind­um, og nær bláa líf­hag­kerfið yfir all­ar þær lif­andi auðlind­ir hafs­ins sem við nýt­um. Bláa hag­kerfið er vannýtt víða um heim og þaðan koma t.d. minna en 5% allra mat­væla á meðan meira en 95% mat­væla verða til á landi –og það þrátt fyr­ir að vötn og höf þeki meira en 70% af yf­ir­borði jarðar.“

Sveinn seg­ir sér­kenni Íslands m.a. birt­ast í því að þar hef­ur hlut­föll­un­um verið snúið við og um 80-90% af öll­um mat­væl­um sem landið fram­leiðir komi úr haf­inu.

Sveinn hvetur bæði stjórnvöld og atvinnulíf til að skoða mjög vandlega „að nota t.d. þá þekk­ingu sem býr í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi til að stór­bæta vinnslu, veiðar og markaðssetn­ingu víða um heim. Í öll­um heims­álf­um megi finna lönd sem hafa alla burði til að nýta auðlind­ir sjáv­ar mun bet­ur og eru stödd þar sem Ísland var fyr­ir 30 eða 40 árum. Að taka þátt í því að færa sjáv­ar­út­veg þess­ara þjóða inn í nú­tím­ann myndi ekki aðeins vera gott viðskipta­tæki­færi held­ur gæti líka aukið hróður lands og þjóðar.“

Að mati Sveins ætt­u Íslendingar „að sam­hæfa stefn­una í sjáv­ar­út­vegs­mál­um, ut­an­rík­is­mál­um og viðskipta­mál­um, og ráðast í tang­ar­sókn. Núna er ein­mitt rétti tím­inn enda er því spáð að bláa líf­hag­kerfið muni vaxa gríðarlega og að um all­an heim verði miklu fjár­magni varið í þenn­an hluta at­vinnu­lífs­ins. Ísland þyrfti að vera í far­ar­broddi í þess­ari þróun, því ann­ars er hætta á að við drög­umst aft­urúr.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á sjávarútvegsvef Morgunblaðsins 200 mílum.

IS