Fréttir

Hráefnisnýting langbest á Íslandi

Þetta kom fram í erindi Hauks Más Gestssonar hagfræðings, sem starfar innan Sjávarklasans, á Sjávarútvegsráðstefnunni í Reykjavík á dögunum og einnig er stutt síðan Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís gerði þessu góð skil í fréttum Stöðvar 2.

Nýting þorsks í ríkjunum við Norður-Atlantshaf er áberandi best á íslandi eða 76% á meðan hún er 50% í Færeyjum, 45% í Kanada og 43% á Grænlandi. „Ég tel helstu ástæðu betri nýtingar hér vera meiri nýtingu á aukaafurðum og þar má eflaust þakka bæði regluverkinu og góðu samstarfi fyrirtækja við Matís en góð flakanýting spilar ugglaust inn í líka. Lifrin er gott dæmi um afurð sem er vel nýtt hér á landi. Megnið af henni fer í lýsi auk þess sem hún er soðin niður. Hrogn eru einnig nýtt.

Nýtingin að aukast
Sama er að segja um hausa og beingarða. Nær allir þorskhausar sem koma hér á land fara til þurrkunar og sömuleiðis vaxandi hluti af þorskhausum sem til fellur á frystitogurum. Þessar afurðir eru seldar til Nígeríu. Af meðfylgjandi línuriti má ætla að nýtingin hafi versnað hér á landi frá 2009. Haukur segir að svo þurfi ekki að vera. „Það verður að fara varlega í að bera saman nýtinguna milli einstakra ára. Vara sem er til dæmis framleidd árið 2009 kemur stundum ekki fram í  útflutningstölum fyrir árið á eftir. Það er því meira vit í að skoða línuritið yfir lengri tímabil og samkvæmt því er nýtingin að aukast. Aftur á móti má lesa af skýringarmyndinni að nýting í hinum löndunum hefur heldur verið á niðurleið. Ég hef enga skýringu á því.“

Norðmenn öflugir

Að sögn Hauks hafði hann ekki nægilega góð gögn til að hafa Noreg með í þessum samanburði. „Norðmenn hafa skoðað þetta sjálfir og samkvæmt því er nýtingin hjá þeim um 41% en þar sem þar var notuð önnur aðferð en ég notaði ber að fara varlega í að bera þessar tölur saman. Norðmenn eru öflugri en flestar aðrar þjóðir í að kanna tækifærin í aukaafurðum, til dæmis með útflutning á hrognum og sviljum til Asíu. Þar voru sérstök samtök stofnuð, RUBIN, sem fengu mikið fjármagn til að rannsaka aukaafurðir en þessa stofnun er reyndar nýbúið að leggja niður í dag.“

Innyfli og hausar nýtast illa
„Ég tel að íslendingar eigi að geta stigið skrefinu lengra til betri nýtingar á til dæmis slógi, hausum og beingörðum og hámarka virði þess. Hausinn er milli 20 og 30% af hverjum fiski og samkvæmt könnun Matís er ekki nema lítill hluti hausanna nýttur ef þorskurinn er frátalinn,“ segir Haukur Már Gestsson að lokum.

Ofangreind frétt birtis fyrst í Viðskiptablaðinu 29. nóvember 2012. Pistlahöfundur er Vilmundur Hansens, vilmundur(at)fiskifrettir.is.


Hér má finna fréttir Stöðvar 2 frá 19. október sl. Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

IS