Fréttir

Sjávarþörungar eru vannýtt auðlind á Íslandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

„Íslenskir sjávarþörungarnir eru vannýtt auðlind að minnsta kosti hér á Íslandi, en það er ýmislegt í gangi sem tengist þörungum og þeir koma víða við í okkar rannsóknum,” segir Jón Trausti Kárason sérfræðingur en hann er einn þeirra sem tengjast þörungarannsóknum hjá Matís.

Jón Trausti segir að um átta vísindamenn hjá Matís starfi öðrum fremur að þörungarannsóknum þótt fleiri tengist þeim verkefnum með einum eða öðrum hætti. Meðal nýlegra afurða sem byggja á þörungarannsóknum vísindamanna Matís eru húðvörur sem sprotafyrirtækið Marinox hefur sett á markað en þær innihalda lífvirk andoxunarefni sem eru unnin úr þangi og þykja sérstaklega góð fyrir húðina.

Af öðrum afurðum sem eru væntanlegar á markað innan tíðar nefnir Jón Trausti meðal annars þörungaskyr og byggpasta sem er bætt með þörungum. „Reyndar var það hópur nemenda sem var hjá okkur í fyrrasumar sem byrjaði þróun þörungaskyrsins og afurðin keppti fyrir Íslands hönd í Ecotrophelia, sem er nemendakeppni með vistvæna nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þetta gekk það vel að þróunarvinnunni var haldið áfram og núna er þörungaskyrið að koma. Hér er á ferðinni matvara sem er skyr og þaramjöl í grunninn en bragðbætt með bláberjum og hunangi,” segir Jón Trausti.

Jón Trausti, ásamt fleirum hjá Matís, er fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Hann kom til Matís áður en hann lauk námi, þá í verkefnum tengdum námi sínu. Í kjölfarið sköpuðust svo tækifæri, þar sem bilið á milli iðnaðarins og vísindasamfélagsins var brúað með og er Jón Trausti, ásamt öðrum starfsmönnum Matís, mikilvægur hlekkur í þeirri virðiskeðju. Fyrir ungu kynslóðina er það spennandi verkefni að vera í miðju hringiðu matvælaframleiðslu á Íslandi en þó með stóran snertiflöt við menntakerfið. Hugsjón þessarar ungu kynslóðar er háleit og spennandi. Hún er m.a. að efla stöðu Íslands sem matvælaframleiðsluþjóðar en breytingar í umhverfinu hafa skapað aðstæður sem gera það að verkum að við Íslendingar sjáum tækifæri til stórsóknar í framleiðslu úr hráefnum sem e.t.v. hefur ekki verið litið til í áratugi.

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason hjá Matís.