Fréttir

Hvað finnst íslenskum neytendum um saltfisk?

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Löng hefð er fyrir vinnslu saltfisks hér á landi en áður fyrr var öðru fremur notast við saltið til að lengja geymsluþol fiskins. Í dag telst saltfiskur sælkeravara sem nýtur mikilla vinsælda víða um heim, ekki síst í Suður-Evrópu, þar sem hefðir og gæði íslenska saltfisksins leika stórt hlutverk.

Matís aflaði nýverið upplýsinga um ímynd saltfiskafurða í hugum Íslendinga, almenna þekkingu á saltfiski og sögu hans, og upplifun á saltfiski. Könnunin var framkvæmd í maí 2019 og alls luku 505 manns könnuninni. 

Saltbragð ekki eitt af aðaleinkennum saltfisks

Saltfiskur sem hefur verið fullsaltaður, staðinn og útvatnaður hefur einkennandi verkunarlykt og verkunarbragð, sem hvort tveggja þykir minna til dæmis á smjör, popp, sveppi, blautan við eða harðfisk. Saltbragð ætti hins vegar ekki að vera eitt af aðaleinkennum saltfisks þó svo heitið „saltfiskur“ gefi annað til kynna, og oft valdið misskilningi, eins og niðurstöður úr könnun Matís gefa til kynna.

Saltfiskur ekki vinsæll hjá ungu kynslóðinni

Mikill munur var á svörum þátttakenda eftir aldri. Niðurstöðurnar sýna að neysla á bæði fiski og saltfiski fer minnkandi með lækkandi aldri. Einungis um 29% þátttakenda á aldrinum 18-29 ára borða saltfisk einu sinni á ári eða oftar en samsvarandi hlutfall fyrir elsta hópinn, 60-70 ára er um 94%. Helstu ástæður þess að þátttakendur borða ekki saltfisk er að þeim finnst hann ekki góður, of saltur, skortur á framboði og að það sé lítil hefð fyrir saltfiski en almennt er upplifun þeirra sem hafa keypt saltfisk á veitingastað, fiskbúð og matvöruverslun góð.


Niðurstöður úr þessari könnun sýna minnkandi þekkingu, áhuga og neyslu á saltfiski í yngri aldurshópum miðað við þá sem eldri eru. Líklegt er að ímynd saltfisks sem gæðavöru eigi undir högg að sækja. Til að ýta undir neyslu á saltfiski þarf að kynna hann betur og gera sýnilegri, ekki síst meðal yngri aldurshópa, hvort heldur sem er í mötuneytum, matvöruverslunum, fiskbúðum eða veitingastöðum.

Saltfiskvika 4. – 15. september 2019

Blásið verður til Saltfiskviku á veitingastöðum hringinn í kringum landið dagana 4. til 15. september. Markmiðið með Saltfiskvikunni er að gera þessari einni verðmætustu útflutningsafurð Íslands hærra undir höfði og auka veg hennar heima fyrir.

Alls taka 13 veitingastaðir þátt, allir með a.m.k. einn saltfiskrétt á matseðlinum. Gestakokkar frá Ítalíu, Spáni og Portúgal eru jafnframt væntanlegir sem munu elda á völdum stöðum.


Instagram leikur #saltfiskvika – Vinnur þú ferð til Barcelona?

Á meðan á vikunni stendur eru viðskiptavinir sem panta sér saltfiskrétt hjá þátttakendum Saltfiskvikunnar hvattir til að birta mynd á Instagram, merkta myllumerkinu #saltfiskvika. Einn heppinn þátttakandi verður dreginn út og mun sá fá ferð fyrir tvo til Barcelona.

Mötuneyti vinnustaða eru hvött til að bjóða upp á saltfisk í hádeginu meðan á Saltfiskvikunni stendur – enda á hann ekki síður við þá en á kvöldin. Þegar hafa þó nokkrir vinnustaðir ákveðið að vera með og bjóða upp á saltfisk í hádeginu í Saltfiskvikunni, þ.e.; Arion banki, ITS, Marel, Origo, Orkuveitan, Seðlabankinn, Síminn og VÍS. Börnin á leikskólanum Laufásborg munu einnig smakka saltfisk meðan á vikunni stendur en þar mun ítalskur landsliðskokkur elda. Saltfisk verður einnig að finna í völdum matarpökkum 1, 2 & ELDA í Saltfiskvikunni fyrir áhugasama.

Vonir eru bundnar við að landsmenn nýti tækifærið og gefi saltfiskinum séns – enda sælkeravara sem farið hefur allt of hljótt hérna heima.

Að Saltfiskvikunni standa; Matís, Íslandsstofa, Kokkalandsliðið og Félag íslenskra saltfiskframleiðenda.

Sjá nánar um könnuna hér og Saltfiskvikuna á www.saltfiskvika.is.

IS