Fréttir

Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Fyrir stuttu hlaut dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri IceProtein og Protis, hvatningarverðlaun sjávarútvegsins. Verðlaunin eru rós í hnappagat Hólmfríðar, starfsfólks IceProtein og Protis og FISK Seafood, eiganda IceProtein og Protis og viðurkenning á starfsemi þessara fyrirtækja í Skagafirði. Verðlaunin eru auk þess sérstakt ánægjuefni fyrir Matís því ekki er svo langt síðan Hólmfríður starfaði hjá við líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.

En hvað er IceProtein og hverslags starfsemi er um að ræða hjá fyrirtækinu?

Saga IceProtein, Matís á Sauðárkróki og dr. Hólmfríðar Sveinsdóttur

IceProtein

Á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf), sem er forveri Matís, var árið 2005 stofnað nýsköpunarfyrirtæki kringum rannsóknaverkefni sem fólu í sér nýtingu á próteinum úr afurðum hafsins sem voru ekki fullnýtt í vinnslu. Árið 2006, vegna áhuga FISK Seafood á starfseminni, var verksmiðja IceProtein flutt til Sauðárkróks og og varð hluti af Verið Vísindagarðar.

FISK Seafood eignaðist síðan 64% hlut í Iceprotein árið 2009 á móti 36% hlut Matís. IceProtein hefur ásamt Matís verið þátttakandi í fjölda rannsóknaverkefna. Stefna IceProtein var að sækja um styrki til rannsókna og þróa þjónustuverkefni fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og önnur fyrirtæki. Kaupfélag Skagfirðinga stofnaði þróunarsjóð sem styðja átti við rannsóknir tengdar starfsemi félagsins árið 2010 og voru tekjur sjóðsins 0,15% af rekstrartekjum hverrar framleiðslueiningar. Frá stofnun þróunarsjóðsins hefur starfsemi IceProtein í auknum mæli verið tengd þjónustuverkefnum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga. Í árslok 2012 Keypti FISK Seafood hlut Matís í IceProtein og réð dr. Hólmfríði Sigurðardóttur sem framkvæmdastjóra. Skömmu síðar voru fleiri starfsmenn ráðnir til fyrirtækisins og rannsóknargetan og framleiðslan aukin.

Árið 2015 leiddi starfsemi IceProtein til stofnunar nýs fyrirtækis, Protis, sem annast framleiðslu og sölu á nýrri vörulínu undir nafni hins nýja félags. Í dag eru framleiddar þrjár tegundir af fæðubótarefnum undir nafni Protis og eru þær seldar í flestum verslunum hér á landi. Í janúar 2016 voru starfsmenn Protis og IceProtein fjórir og og hafa þeir allir menntun í líftækni og lífefnafræði.

Matís á Sauðárkróki

Í nóvember 2008 opnaði Matís líftæknismiðju á Sauðárkróki þar sem sérhæfð rannsóknastofa á sviði líftækni og lífefna var staðsett. Markmiðið var að leiða saman fyrirtæki í Skagafirði og beita háþróaðri rannsóknatækni við framleiðslu afurða úr vannýtum hráefnum. Líftæknismiðjan vann með IceProtein að tilraunaframleiðslu og byggð var upp aðstaða til greininga á lífvirkum efnum. Líftæknismiðjan á Sauðárkróki var sett á fót með stuðningi FISK Seafood  sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Í ársbyrjun 2016 voru starfsmenn Matís á Sauðárkróki fjórir.

Frá Verinu á Sauðárkróki

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

Hólmfríður Sveinsdóttir varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í maí 2008 og hóf þá um haustið störf í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki ásamt öðrum starfsmönnum og meistaranemendum. Frá þeim tíma hefur Hólmfríður verið í forsvari fyrir rannsóknir og þróun á sviði líftækni og lífefna. Doktorsgráða Hólmfríðar er á sviði líftækni og í meistaranámi lagði hún stund á næringarfræði. Áhugasvið hennar hefur verið rannsóknir á lífefnum unnum úr hráefnum úr hafinu og með sérstakri áherslu á prótein og peptíð sem unnin eru úr þorski (Gadus morhua).

Árið 2011 fjárfesti FISK Seafood, sem þá hafði eignast meirihluta í IceProtein, í nýjum höfuðstöðvum og fluttu IceProtein og líftæknismiðja Matís í það húsnæði. Við það tækifæri jók Matís við tækjakost í líftæknismiðjunni. Árið 2013 þegar FISK Seafood hafði eignast IceProtein að fullu, flutti Hólmfríður sig um set frá Matís og gerðist framkvæmdastjóri IceProtein.

“Ég vona að þessi verðlaun séu ekki einungis vatn á myllu okkar Skagfirðinga til að halda áfram nánu samstarfi við alls kyns frumkvöðla í þágu nýsköpunar og framþróunar FISK Seafood og greinni til heilla heldur komi einnig til með að hvetja önnur sjávarútvegsfyrirtæki til að auka samstarf við frumkvöðla. Nýsköpun leiðir af sér betri gæði við veiðar og vinnslu, bætta ímynd, fjölbreyttari afsetningaleiðir og meiri verðmætasköpun innan fyrirtækjanna.”
Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

IS