Fréttir

Allt í land – fundur um bætta nýtingu sjávarafla á norðurslóðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Samhliða formennskuáætlun Færeyinga í Norrænu ráðherranefndinni hefur færeyska fyrirtækinu Syntesa verið falið að kanna möguleika hinna Norrænu þjóða á bættri nýtingu sjávarafla.

Sem hluti af þeirri vinnu hefur Syntesa, ásamt samstarfsaðilum í Noregi, Grænlandi og Íslandi, staðið fyrir vinnufundum með hagsmunaaðilum og greint ýmis gögn er snúa að nýtingu afla. Slíkur fundur var haldinn í húsakinnum Matís í nóvember sl. sem tókst með miklum ágætum.

Nú er komið að seinni fundinum hér á landi í þessari fundaröð og munu starfsmenn Syntesa greina þar frá helstu niðurstöðum vinnufundanna í Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Fundurinn fer fram í húsakynnum Matís, Vínlandsleið 12, klukkan 9:00-11:00, 14. apríl nk.

Þess er vænst að niðurstöður vinnufundanna muni móta að einhverju leyti þá stefnu sem Norræna ráðherranefndin mun taka varðandi fullnýtingu fiskafla og stuðning við rannsóknir og þróun á því sviði á næstu misserum. Því er mikilvægt að raddir sem flestra hagsmunaaðila heyrist á þessu fundum. Ljóst er að þegar kemur að (full)nýtingu sjávarafla standa Íslendingar mjög framarlega, en þó er alltaf hægt að gera betur. Því er mikilvægt að hagsmunaaðilar ræði saman um hvernig hægt sé að bæta tækni, aðlaga lagaumhverfi/fiskveiðistjórnun, þróa nýjar afurðir og markaði ofl. þannig að allur afli sem veiddur er komi að landi og verði að verðmætum afurðum.

Á síðustu misserum hefur sprottið upp fjöldi fyrirtækja sem stunda framleiðslu á svokölluðum hliðarafurðum. Þessi geiri er í mikilli sókn og er ljóst að mörg tækifæri leynast í nýtingu á hráefni sem áður var fleygt, urðað eða brætt. Mikilvægt er að þarfir þessa geira séu hafðar í huga þegar fullnýting er rædd.

Er það von þeirra sem standa að fundinum að sem flestir hagsmunaaðilar sjái sér fært að mæta og leggi sitt að mörkum þannig að sjónarhorn og þarfir sem flestra komi fram.

Bætt nýting sjávarafla á norðurslóðum

Staður: Matís, Vínlandsleið 12, Reykjavík
Tími: 14. apríl 2016 kl 9:00-11:00

Dagskrá

9:00       Fundarsetning (Jónas R. Viðarsson – Matís)
9:10       Helstu niðurstöður „alt í land“ (Unn Laksá – Syntesa)
9:40       Efnahagsleg greining á bættri nýtingu sjávarafla (Magni Laksafoss – Syntesa)
10:00     Fullnýting bolfisks á Íslandi (Ásbjörn Jónsson – Matís)
10:15     Umræður (Jónas R. Viðarsson – Matís)
11:00     Fundarlok

Nauðsynlegt er að tilkynna þátttöku með því að senda tölvupóst á Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonas@matis.is