Fréttir

Hvað er í fóðri fiska?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Svik í viðskiptum með matvæli eru alvarlegt vandamál og fiskur meðal þeirra matvæla þar sem mest svindl virðist viðgangast. Matís efndi til málstofu þar sem fjallað var um matvælasvik frá ýmsum hliðum, og meðal annars skoðað á hvaða hátt erfðatækni getur nýst til að stuðla að auknum heilindum.

Er Matís einn af 38 þátttakendum í stóru samevrópsku verkefni, Food Integrity, sem ætlað er að greina svik með matvæli og þróa fyrirbyggjandi aðferðir. Hefur verkefninu verið úthlutað samtals 12 milljónum evra og snýr hlutur Matís að viðskiptum með sjávarafurðir.

Pálmaolía og melamín

Jón Árnason, verkefnastjóri hjá Matís, flutti erindi á ráðstefnunni þar sem hann fjallaði um hvernig má fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs í fiskeldi. Hann segir vandamál með fiskeldisfóður sem betur fer vera fátíð, en samt þurfi að vera á verði. Þá geri neytendur vaxandi kröfu um að vita mikið um uppruna alls þess matar sem þeir borða. „Neytendur horfa ekki bara á gæðin og verðið heldur líka hvaðan maturinn kemur og hvað hann inniheldur. Þetta gerir það að verkum að enn brýnna verður fyrir fiskeldisfyrirtæki að geta með vissu rakið allt það hráefni sem notað er til eldisins.“

Nefnir Jón nokkur dæmi, eins og þær deilur sem komu upp í umræðunni um norskt laxeldi fyrir ári. „Þá spannst mikil umræða um notkun pálmaolíu í fiskafóðri vegna þess hvernig pálmaolía er framleidd víða um heim. Stunda bændur það að eyða villtum frumskógi til að greiða fyrir pálmaræktuninni og bitnar mjög á lífríkinu á þeim svæðum.“

Einnig nefnir Jón það uppnám sem varð í Evrópu á sínum tíma þegar upp komst að framleiðandi hafði blandað kjöt- og beinamjöli saman við hefðbundið fiskimjöl. „Þetta var þegar óttinn við Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn var hvað mestur og varð til þess að Evrópusambandið takmarkaði mjög notkun fiskimjöls á tímabili.“

Segir Jón jafnvel hugsanlegt að framleiðendur gætu tekið upp á því að bæta efninu melamín út í fiskeldisfóður til að búa til villandi niðurstöður um næringarinnihald. „Um er að ræða ólífrænt samband af köfnunarefni sem nýtist ekki sem næring og getur jafnvel virkað sem eitur, en ef gerð væri greining á köfnunarefnisinnihaldi melamín-blandaðs fóðurs myndi hún gefa til kynna að prótíninnihaldið væri hærra en það er í raun.“

Hvað er þá til ráða? Jón segir eina leið til að tryggja heilindin að stuðla að vönduðu upplýsingaflæði niður alla virðiskeðjuna. Önnur leið er að nýta alþjóðlega staðla og stóla á opinbert eftirlit. „Aquaculture Stewardship Council og ýmsir aðrir staðlar leitast við að votta ferla og gæði niður alla virðiskeðjuna.“
Þriðja leiðin er að nota erfðatækni og láta fóðursýnin segja söguna. „Ef grunur leikur á því að eitthvert hráefni sé í fóðrinu sem ekki á að vera þar þá getur erfðarannsókn skorið úr um hvort svo sé. Jafnvel í mjölformi er hægt að greina hvað hefur farið í fóðrið, s.s. hvaða plöntu- og dýrategundir er þar að finna.

Ofagreind frétt/viðtal birtist í Morgunblaðinu og á www.mbl.is 17. mars sl. / ai@mbl.is.

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason hjá Matís.