Fréttir

Hvernig má bæta samkeppnishæfni í virðiskeðju sjávarafurða?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís opnar á morgun stórt verkefni úr ranni 8. rammaáætlunar Evrópu á sviði rannsókna og þróunar (Horizon 2020). Verkefnið snýst um framleiðslu sjávarafurða og hvernig bæta má samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðamarkaði. Því er stjórnað af dr. Guðmundi Stefánssyni, fagstjóra á Matís og er styrkur Horizon 2020 vegna verkefnisins um 750 milljónir króna. Verkefnið er það þriðja á fáum árum sem Matís stjórnar á sviði virðiskeðju sjávarfangs innan Evrópu (EcoFishMan og MareFrame).

Samkeppnishæfni margra evrópskra sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja hefur átt á brattan að sækja undanfarin ár og vöxtur í sjávarútvegi í álfunni hefur verið takmarkaður. Markmið PrimeFish er greina helstu ástæður og koma með tillögur að úrbótum sem stuðla að aukinni nýsköpun og samkeppnishæfni og hvetja vöxt innan greinarinnar.

Kaupa neytendur fisk eingöngu út frá verði en ekki vegna gæða, sérstöðu eða rekjanleika?

Gæði fiskmetis eru mikil í Evrópu enda gera neytendur í flestum löndum álfunnar miklar kröfur þegar kemur að sjávarfangi. Sérstaða evrópsks sjávarútvegs og eldis er einnig mikil en þrátt fyrir það hafa evrópskir framleiðendur sjávarfangs margir átt undir högg að sækja undanfarin misseri, þá ekki síst þegar kemur að samkeppni gagnvart ódýrari tegundum hvítfisks frá Asíu. Hugsanlegt er að neytendur skilji ekki þau gæði og sérstöðu sem evrópsk framleiðsla stendur fyrir, en einnig getur ástæðan verið sú að framleiðendur komi ekki þessum upplýsingum á framfæri með nægjanlega skýrum hætti eða þá buddan ráði för evrópskra neytenda.

Hvernig geta framleiðendur sjávarafurða best komið sínum skilaboðum á framfæri til evrópskra neytenda?

Stöðugur óstöðugleiki

Verð og framboð sjávarafurða á evrópskum markaði hefur sveiflast umtalsvert sl. ár og hefur það grafið undan stöðugleika í rekstri fyrirtækja. Breytilegt reglugerðaumhverfi hefur áhrif á samkeppnishæfni og getur gert fyrirtækjum erfitt fyrir að uppfylla kröfur og væntingar neytenda. Dæmin sanna að markaðssetning á mörgum nýjum sjávarafurðum hefur mistekist sl. ár. Skilja framleiðendur ekki neytendur eða liggja aðrar ástæður að baki?  Slíkar spurningar eru meðal þess sem Primefish verkefnið mun taka á.

Nánar um PrimeFish

PrimeFish er fjögurra ára verkefni og taka þátt í því fyrirtæki, rannsóknastofnanir og háskólar. Þeirra á meðal eru Kontali, Syntesa, INRA, Nofima, Háskóli Íslands, háskólarnir í Álaborg, Parma, Stirling, Pavia, Nha Trang University í Víetnam og Memorial University í Kanada. Talsverður fjöldi hagaðila, s.s. sjávarútvegsfyrirtæki, tekur jafnframt þátt í verkefninu.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Stefánsson verkefnisstjóri PrimeFish.