Fréttir

Íslendingar leiða rannsóknaverkefni upp á tæpan einn milljarð króna – fiskveiðistjórnunin í Evrópu í brennidepli

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ísland fer með forystuhlutverk í nýju fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlunin í Evrópu styrkir og er metið á 943 milljónir króna (6 milljónir evra).

MareFrame verkefnið: “Co-creating Ecosystem-based Fisheries Management Solutions“

Matís og Háskóli Íslands gegna forystuhlutverki í nýju umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlun Evrópu hefur ákveðið að styrkja til fjögurra ára. Stuttheiti verkefnisins er MareFrame og ber enska titilinn: „Co-creating Ecosystem-based Fisheries Management Solutions“. Styrkurinn hljóðar upp á 6 milljónir evra, en heildarkostnaður við verkefnið er 7.8 milljónir evra. Hlutur Íslands í verkefninu nemur um 275 milljónum íslenskra króna sem skiptast á milli Matís, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Styrkurinn er meðal stærstu verkefnastyrkja sem veittir eru í Evrópu á þessu sviði.

Matís er verkefnastjóri MareFrame, en í því felst að Matís ber m.a. ábyrgð á að stjórna framgangi verkefnisins og samskiptum við fjármögnunaraðila. Allt styrktarféð rennur til Matís sem síðan greiðir innlendum og erlendum samstarfsaðilum sínum. Mikil samkeppni er um rannsóknarstyrki 7. rannsóknaráætlunarinnar. MareFrame hlaut 14 stig af 15 mögulegum í mati fagnefndarinnar, sem er frábær árangur. Með þessu festa íslenskir vísindamenn sig enn frekar í sessi í alþjóðlegu vísindasamstarfi.

Í MareFrame verkefninu verður þróað fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi og fundnar leiðir til að auðvelda innleiðingu þess í Evrópu. Áhersla er lögð á vistvæna, sjálfbæra, félagslega og hagræna stjórnun. Einnig er lögð áhersla á samstarf við sjómenn, útgerðir og vinnslu ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem koma að stjórnun fiskveiða.

Þrír af hverjum fjórum fiskistofnum Evrópusambandsins eru ofveiddir í dag, þar af 47% stofna í Atlantshafi og 80% í Miðjarðarhafinu því er mikil þörf fyrir nýjar leiðir í fiskveiðistjórnun. Fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í endurskoðun og er m.a. verið að leita leiða til að stemma stigum við ofveiði.

Eitt af markmiðum MareFrame verkefnisins er að byggja á því sem vel hefur tekist í fiskveiðistjórnun, m.a. notkun á íslenska fjölstofnalíkaninu „Gadget“ sem er einnig notað víða erlendis. Jafnframt því er horft til aukins samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum sem og annarra hagsmunaaðila við þróun fiskveiðistjórnunarkerfa, en það er lykilatriði við innleiðingu fiskveiðistjórnarkerfisins.  MareFrame mun m.a. þróa sjónrænt viðmót, tölvuleiki og tölvustudda námstækni til að koma niðurstöðum og stjórnunarleiðum á framfæri, en sú námstækni er að hluta til afrakstur íslenskra rannsókna.

Að MareFrame verkefninu koma alls 28 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í 10 Evrópulöndum (Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Pólland, Bretland, Spánn, Ítalía, Rúmenía, Noregur og Ísland) ásamt vísindamönnum frá Suður Afríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri og dr. Gunnar Stefánsson, prófessor hjá Raunvísindadeild Háskóla Íslands er vísindalegur verkefnisstjóri.

Upphafsfundur MareFrame verkefnisins verður haldinn í húsakynnum Matís í Reykjavík dagana 11. – 13. febrúar 2014.