Fréttir

Íslenskir hafrar nær alveg lausir við eiturefni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nær ekkert mældist af mýkótoxínum (sveppaeiturefnum) í íslenskum höfrum þegar mælingar voru gerðar fyrr á árinu. Þessar niðurstöður eru afar mikilvægar fyrir matvælaöryggi.

Í Bændablaðinu frá 26. ágúst síðastliðnum er fjallað um niðurstöður úr verkefninu Mannakorn – Hafrar sem styrkt er af Matvælasjóði. Verkefnið fjallar um tilraunir með mismunandi yrki af höfrum í þeim tilgangi að finna þau yrki sem best henta við íslenskar aðstæður. Verkefninu er stýrt af starfsfólki Landbúnaðarháskólans en starfsfólk Matís sér um einn verkþáttinn sem fjallar um gæðamat og gæðamælingar á hafrasýnum.

Mýkótoxín (sveppaeiturefni) voru meðal þess sem tekið var til skoðunar. Á Matís voru sýni undirbúin og send til Þýskalands í mælingar á 11 mýkótoxínum. Mýkótoxín eru aðskotaefni sem sumir myglusveppir geta myndað við ákveðnar umhverfisaðstæður, einkum þegar er rakt og hlýtt. Mýkótoxín geta skaðað heilsu fólks og búfjár en sum þessara efna eru meðal öflugustu eiturefna sem til eru. Niðurstöður mælinganna sýndu að 10 þessara efna voru ekki mælanleg en eitt efnið mældist en í afar litlu magni sem var langt undir hámarksgildi í reglugerð.

Þessar niðurstöður skipta miklu máli fyrir matvælaöryggi korns sem framleitt er á Íslandi og vekja vonir um að hægt verði að framleiða íslenskt korn sem verði því sem næst laust við mýkótoxín. Engu að síður er mjög mikilvægt að gera mælingar á mýkótoxínum í íslensku korni reglulega, ekki síst vegna hlýnandi veðurfars.

Eftir því sem verkefninu Mannakorn – Hafrar vindur fram verður verkefnasíða þess uppfærð en hana má skoða hér: Mannakorn – Hafrar.

IS