Meginmarkmið verkefnisins Hermun kæliferla – varmafræðileg hermun vinnslu- og flutningaferla, sem hófst í júní 2008, var að endurbæta verklag og búnað fyrir vinnslu og flutning á sjávarafurðum.
Kæling ferskfisks bætt með varmaflutningslíkönum
Í verkefninu var notast við ferlagreiningu, tilraunir og tölvuvædd varma- og straumfræðilíkön til að ná settum markmiðum. Afleiðingar bættrar hitastýringar í vinnslu- og flutningaferlum eru aukin gæði, stöðugleiki og öryggi, sem auka um leið verðmæti vörunnar. Samstarfsaðilar í verkefninu voru Matís, Háskóli Íslands, Promens Tempra, Eimskip Ísland, Samherji, Brim (ÚA), Festi og Eskja.
Dæmi um afurðir verkefnisins eru varmaflutningslíkön af ferskfiskafurðum í frauðkassa, sem gera kleift að spá fyrir um fiskhita út frá umhverfishitasögu. Varmaflutningslíkön voru notuð til að endurhanna 3, 5 og 7 kg frauðkassa Promens Tempra með lágmörkun hæsta fiskhita í kössunum undir hitaálagi að markmiði. Tilraunir staðfestu yfirburði nýju kassanna umfram hefðbundnar kassagerðir, bæði m.t.t. hitastýringar og gæða vöru undir hitaálagi. Nýju kringdu frauðkassarnir hafa leyst eldri gerðir frauðkassa Promens Tempra af hólmi (sjá mynd 1) og hafa þar með aukið samkeppnisfærni íslenskra ferskfiskafurða, sér í lagi þeirra flugfluttu. Niðurstöður annarrar tilraunar sýna að geymsluþol ferskra fiskflaka í hornkössum heils bretti í flugflutningskeðju getur verið um 1 – 1,5 dögum styttra en flaka í kössum í miðju brettastaflans. Hitadreifing í mismunandi kælikeðjum var kortlögð og sérstök áhersla lögð á forkælingu flaka fyrir pökkun og hitadreifingu í mismunandi tegundum kæligáma með mismunandi hleðslumynstur. Niðurstöður verkefnisins hafa ekki aðeins nýst flugflutningskeðjum heldur hafa þær einnig stuðlað enn frekar að auknum möguleikum á öruggum flutningi ferskfiskafurða með skipum.
Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Auðlinda og afurða.