Fréttir

Koffínneysla framhaldsskólanema – ný skýrsla Áhættumatsnefndar

Tengiliður

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir

Verkefnastjóri

asta.h.petursdottir@matis.is

Að beiðni Matvælastofnunar hefur Áhættumatsnefnd á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru rannsakað hvort neysla orkudrykkja sem innihalda koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í framhaldsskólum.

Skýrslan sýnir að vægi orkudrykkja í heildarkoffínneyslu íslenskra ungmenna er meira en sést hefur í sambærilegum erlendum rannsóknum. Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar og 10-20% framhaldsskólanema drekka orkudrykki daglega. Þeir nemendur sem neyta orkudrykkja eru um sex sinnum líklegri til að fara yfir viðmiðunarmörk Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um það magn koffíns sem hefur áhrif á svefn og öryggismörk koffíns fyrir hjarta og æðakerfið til samanburðar við þá nemendur sem ekki neyta orkudrykkja.

Niðurstöður nefndarinnar gefa til kynna að tilefni sé til að takmarka aðgengi framhaldsskólanemenda að orkudrykkjum þar sem framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja virðist skila sér í að neysla íslenskra framhaldsskólanema er meiri en æskilegt er.

Áhættumatsnefndin gaf út sambærilega skýrslu fyrir ári síðan sem tekur til neyslu ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum. Niðurstöður sýna að hlutfall nemenda sem neytir orkudrykkja tvisvar sinnum í viku eða oftar eykst með aldri, þar sem um tíundi hver nemandi í áttunda bekk neytti orkudrykkja oftar en tvisvar sinnum í viku en annar hver framhaldsskólanemi á aldrinum 18-20 ára. Athygli vekur að yngri ungmenni eru líklegri til að fá orkudrykki að gjöf í tengslum við íþróttir og hópastarf (40-70%) en eldri ungmenni (10%). Nýlega hafa fjölmiðlar fjallað um skýrslu áhættumatsnefndar frá 2020 annars vegar hér: Algengt að börn fái orkudrykki gefins og hins vegar hér: Innbyrða tólffalt koffínmagn og upplifa vanlíðan.

Fjallað hefur verið um skýrsluna í fréttum undanfarið en umfjöllun Rúv má finna hér: Íslensk ungmenni þamba orkudrykki sem aldrei fyrr og umfjöllun Vísis hér: Börn þurft að leita á bráða­mót­töku eftir neyslu orku­drykkja

Ásta Heiðrún E. Pétursdóttir, sviðstjóri hjá Matís, er formaður áhættumatsnefndar.

Frekari upplýsingar og helstu niðurstöður má finna í frétt Matvælastofnunar hér: Mikil neysla framhaldsskólanema á orkudrykkjum gefur tilefni til að takmarka aðgengi.

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér: Skýrsla um heilsufarslega áhættu vegna neyslu íslenskra ungmenna í framhaldsskólum á koffíni í drykkjarvörum.

IS