Fréttir

Viggó Þór Marteinsson sæmdur orðu frá franska sendiráðinu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Vísindamaðurinn Viggó Þór Marteinsson hlaut orðuna Or­dre nati­onal du mé­rite.

Viggó lærði líffræði við Háskóla Íslands og lauk þar BS-prófi. Hann fór til Frakklands í framhaldsnám og varði doktorsritgerð við Université de Bretagne Occidentale í ársbyrjun 1997. Viggó er sérfræðingur í örverufræði og prófessor við Matvæla- og næringardeild Háskóla Íslands ásamt því að vera faglegur leiðtogi á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís ohf.

Eftir að hafa lokið doktorsprófi frá Université de Bretagne Occidentale hefur verið í góðu samstarfi við franskt vísindasamfélag. Þessi tengsl hafa leitt til þess að fjölmargir franskir stúdentar hafa komið til Íslands og unnið í lengri og skemmri tíma að verkefnum sem hafa verið hluti af þeirra verkefnum til meistara- eða doktorsgráðu.

„Þó nokkrir hafa lokið eða eru að ljúka doktorsnámi undir minni handleiðslu við HÍ og hafa unnið rannsóknarverkefni sín hjá rannsóknarstofnunum eins og Matís,“ segir Viggó. „Sumir af þessum nemum hafa ílengst hér eftir nám og eru með rannsóknarstöður hjá Matís. Þetta gæfuríka samstarf þjóðanna á sviði raunvísinda heldur áfram og ég geri fastlega ráð fyrir að það muni eflast um ókomna framtíð.“

Orðan var gefin út 20. nóv 2020 en vegna Covid-19 þá var orðuveitinginn þann 9. Júní 2021.

Matís óskar Viggó innilega til hamingju með orðuna.

IS