Fréttir

Leiðbeiningar um skynmat á matvælaumbúðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Norræn nefnd um aðferðafræði sem tengist matvælum (NMKL) hefur gefið út leiðbeiningar um skynmat á matvælaumbúðum. Þær eru á sænsku og kallast Riktlinjer för sensorisk bedömning av livsmedelsförpackningar og meðal höfunda er Emilía Martinsdóttir, verkefnastjóri á Matís.

Norræn nefnd um aðferðafræði sem tengist matvælum (NMKL) er nefnd sem heyrir undir Norðurlandaráð og í henni sitja fulltrúar frá öllum Norðurlandanna. Fulltrúar Íslands í NMKL eru sex frá fjórum stofnunum eða fyrirtækjum og þar af eru þrír frá Matís. Það eru þau Franklín Georgsson, sviðsstjóri, Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri og Heiða Pálmadóttir, deildarstjóri. Nefndin er ein af nokkrum nefndum sem starfar á vettvangi er kallast Norrænn vettvangur um matvæli.

Eins og segir á vefsíðu Norðurlandaráðs þá er “markmiðið með samstarfi Norðurlanda í matvælamálum að vernda heilbrigði neytenda, koma í veg fyrir villandi merkingar og að hvetja til neyslu hollari matvæla.”

Hlutverk NMKL er m.a. að samræma aðferðir við prófun og mat á matvælum á Norðurlöndum, sem og að útbúa leiðbeiningabæklinga fyrir gæðaeftirlit á rannsóknarstofum sem tengjast matvælarannsóknum og í matvælaiðnaði.

Leiðbeiningarnar fjalla um skynmat á matvælaumbúðum, hvernig eigi að þjálfa dómara og hvernig eigi að framkvæma skynmatið. Við skynmat á umbúðum þarf að velja matvæli í skynmatsprófin og taka þarf tillit til eiginleika matvælanna, t.d. hvort um drykki, fitumikil eða fitulítil matvæli með lágt vatnsinnihald, mjölkurvöru o.s.fv. er að ræða Oft er gerð geymluþolsprófun þar sem matvælin eru geymd í viðkomandi umbúðum í ákveðinn tíma. Leiðbeiningarnar eru greinargóðar og ættu að nýtast bæði þeim sem framleiða umbúðir utan um matvæli og matvælaframleiðendum. Leiðbeiningarnar eru á sænsku en unnið er að því að þýða þær á ensku.

Sem fyrr segir er Emilía Martinsdóttir, verkefnastjóri á Matís, einn höfunda leiðbeininganna, en annar íslenskur höfundur er Ása Þorkelsdóttir, en hún starfaði um árabil á Rf.  Nánari upplýsingar veitir Emilía í síma 422 5032, en hún hefur um árabil verið í fararbroddi í notkun skynmats í matvælaiðnaði hér á landi.