Fréttir

Lífgasframleiðsla hliðarbúgrein fiskeldis á Vestfjörðum?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Með aukinni uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum koma fram áhugaverð hliðarverkefni við fiskeldið sem geta stuðlað að minni umhverfisáhrifum. Eitt af þeim verkefnum er að finna viðeigandi úrvinnslu á fiski sem drepst í eldiskvíum á eldistímanum.

Alltaf er eitthvað um að fiskur drepist í eldiskvíunum vegna sára, sjúkdóma eða verður undir í lífsbaráttunni í kvíunum einhverra hluta vegna. Algengt er að reikna með að um 4% af sláturþyngd fisksins drepist á eldistímanum. Flestir fiskar drepast meðan fiskurinn er smár eftir útsetningu í kvíarnar en alltaf er hætta á afföllum þó reynt sé að stemma stigu við þeim. Þessi fiskur er óhæfur til manneldis og sem fóður fyrir dýr og fiska til manneldis en hægt að nota hann í fóður fyrir loðdýr ef tekst að ná fiskinum sem fyrst eftir dauða. Megnið af dauðfiski er þó ekki nýtanlegt í loðdýrafóður og því hefur verið farin sú leið hér á landi að urða hann þar sem önnur leið er ekki í boði enn sem komið er.

Með auknu eldi er fyrirsjáanlegt að magn dauðfisks mun aukast á næstu árum og því brýnt að reyna að finna leiðir til að nýta þetta hráefni betur en að urða það með tilheyrandi kostnaði við geymslu og akstur. Í Noregi hefur þetta hráefni verið sett í sýru til að koma í veg fyrir lyktarvandamál og síðan hefur meltan ásamt öðru hráefni verið notuð sem fóður fyrir niðurbrotslífverur sem brjóta niður hráefnið. Við niðurbrotið myndast lífgas sem samanstendur að stórum hluta af metani og koltvísýringi auk annarra lofttegunda og lífgasið er síðan er notað til orkuframleiðslu. Því kviknaði sú hugmynd að kanna hvort framleiðsla á lífgasi úr dauðfiski væri framkvæmanleg við þær aðstæður sem eru að skapast á sunnanverðum Vestfjörðum.

Verkefnið var samstarfsverkefni Fjarðalax, Orkubús Vestfjarða og Matís og fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða síðastliðinn vetur. Í verkefninu voru kortlagðir allir mögulegir hráefnisstraumar á sunnanverðum Vestfjörðum sem til greina kæmu við lífgasframleiðslu auk mögulegrar nýtingar á orku frá verinu og mögulegt staðarval. Miðað við þær áætlanir sem eru um aukningu laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum gætu fallið til á bilinu 1.200 – 1.600 tonn af dauðfiski innan fárra ára auk annars hráefnis. Kostnaður við förgun þessa fisks gæti hlaupið á 40 – 60 milljónum króna á ári miðað við akstur og urðun í Fíflholti á Mýrum sem er sá urðunarstaður sem næstur er. Kostnaður við uppsetningu lífgasvers sem vinnur úr sambærilegu magni af hráefni gæti verið á bilinu 80 – 120 milljónir en stærðarhagkvæmni ræður miklu um kostnað við lífgasver og rekstur þeirra.

Í verkefninu kom fram að skortur er á kolefnisríku hráefni til að blanda saman við fiskinn til að jafna hlutfall kolefnis og köfnunarefnis en fyrir niðurbrotslífverurnar er æskilegt hlutfall kolefnis á móti köfnunarefni að vera um 30. Kolefni fæst úr hálmi, kornvörum svo sem byggi og grænmetisafskurði svo dæmi séu tekin. Lítið framboð er af slíku hráefni á sunnanverðum Vestfjörðum og því þyrfti að flytja það annars staðar frá svo sem frá brugghúsum eða öðrum stórnotendum. Því gæti önnur hliðarbúgrein við fiskeldið hugsanlega orðið bjórverksmiðja á sunnanverðum Vestfjörðum til að fá kolefni í lífgasframleiðsluna.

Í verkefninu var ekki lagt mat á kostnaðarliði eða hagkvæmni lífgasversins þar sem mjög margir óvissuþættir eru fyrir hendi og því ekki hægt að greina slíkt með neinni nákvæmni. Ljóst er þó að vert er að skoða hugmyndina um lífgasver betur með tilliti til sparnaðar fyrirtækja og umtalsverðs ávinnings í umhverfismálum fyrir fyrirtæki og íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða fær þakkir fyrir fjárhagslegan stuðning við verkefnið og einnig fá þeir fjölmörgu aðilar sem veittu upplýsingar um ýmsa þætti þakkir fyrir sitt framlag.

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Matís.

Nánari upplýsingar veitir Lilja Magnúsdóttir hjá Matís.

IS