Fréttir

Matís á Austfjörðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Kristján Þór Júlíusson, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, brugðu sér ásamt fylgdarliði austur á land þann 16. Júní síðastliðinn. Tilefni ferðarinnar var heimsókn í Múlann í Neskaupstað. Ákveðið var að nýta ferðina vel og heimsækja nokkra af helstu vinnustöðum Austfjarða.

Fyrsti staðurinn sem flokkurinn heimsótti var ný og glæsileg uppsjávarvinnsla Eskju á Eskifirði. Þorstein Kristjánsson, forstjóri Eskju, leiddi fróðlega skoðunarferð ásamt fleirum um húsnæðið sem er gríðarstórt og hátæknilegt. Næst var haldið í húsakynni Egersund á Íslandi sem einnig er staðsett á Eskifirði. Egersund er leiðandi fyrirtæki á sviði sölu, veiðarfæragerðar og viðgerða á flottrollum og nótum og fékk hópurinn að kynnast fólki við hin ýmsu störf.

Því næst var fyrirtækið Laxar fiskeldi heimsótt og haldið var út í eldiskvíar þeirra sem staðsettar eru í Reyðarfirði. Kvíarnar voru skoðaðar og Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri, ásamt fleira starfsfólki bauð að auki upp á kaffibolla úti í pramma sem var kærkominn í slyddunni sem passaði ekki vel við dagsetninguna á dagatalinu. Heimsóknin til Eskifjarðar var svo kórónuð með hádegisverði á Randulffssjóhúsi.

Eftir hádegið var haldið á Norðfjörð og Múlinn, samvinnuhús í Neskaupstað, heimsóttur. Margt starfsfólk var samankomið í Múlanum og fékk hópurinn að sunnan leiðsögn um húsið sem er allt hið glæsilegasta. Ráðherra ávarpaði samkomuna í upphafi og Oddur Már og Þorsteinn Sigurðsson gerðu það einnig. Stefán Þór Eysteinsson sagði að lokum frá uppbyggingu og innviðum nýs lífmassavers sem Matís er er að setja upp á staðnum í samvinnu við Síldarvinnsluna.

Eftir athöfnina í Múlanum var Börkur, nýtt skip Síldarvinnslunnar, skoðaður. Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar leiðsagði hópnum um skipið og sagði frá innviðum sem eru með því fullkomnasta sem gerist.

Ferðin var öll hin ánægjulegasta og ljóst að möguleikar til samstarfs við fyrirtæki á Austfjörðum eru margir og fjölbreytilegir.