Fréttir

Matís býður þjónustu sína víðar í Norður-Evrópu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matvælarannsóknir Íslands (Matís) hafa gert samstarfssamning við nýsköpunarfyrirtækið Bitland Enterprises (BE) sem gerir Matís mögulegt að bjóða þjónustu og ráðgjöf sína á fleiri stöðum í Norður-Evrópu en áður. Má þar nefna samstarf við fyrirtæki í matvælaiðnaði og samstarfsverkefni í gegnum rannsóknasjóði í Evrópu.

Matís hefur lagt áherslu á að bjóða ráðgjöf og þjónustu sína í matvælaiðnaði víðar en á Íslandi og markmið samningsins er að auðvelda fyrirtækinu að ná þeim markmiðum sínum. Matís hefur nú þegar stigið fyrsta skrefið í þá átt með samvinnu við norska rannsóknafyrirtækið SINTEF í lok síðasta árs. Vonast er til þess að samningurinn við BE auki möguleika Matís á fleiri svæðum. BE, sem er með aðsetur í Danmörku og Færeyjum, hefur áralanga reynslu í verkefnastjórnun og í gegnum sjóði og í samstarfi við fyrirtæki í ólíkum iðnaði og mun Matís leggja áherslu á að bjóða fram þjónustu BE hér á landi.

“Markmiðið er fyrst og fremst að bjóða matvælafyrirtækjum á Íslandi, í Færeyjum og öðrum löndum haldbetri þekkingu til áframhaldandi framþróunar í matvælaiðnaði. Þá leggjum við áherslu á að auðvelda Matís og BE þátttöku í nýsköpunarverkefnum, sérstaklega í gegnum alþjóðleg verkefni,” segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.