Fréttir

Matís býður upp á erfða- og upprunagreiningar á laxi í fiskrækt

Á undanförnum vikum hafa fjölmargir strokulaxar úr sjókvíaeldi veiðst víða um land sem bendir til að eldislax í laxveiðiám sé orðinn nokkuð útbreiddur á Íslandi. Fiskrækt hefur verið stunduð hér á landi um áratuga skeið til að auka fiskgengd í ám. Sú ræktun byggir á veiðum á klakfiski úr viðkomandi ám og eldi á seiðum í eldisstöðvum.

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Á undanförnum vikum hafa fjölmargir strokulaxar úr sjókvíaeldi veiðst víða um land sem bendir til að eldislax í laxveiðiám sé orðinn nokkuð útbreiddur á Íslandi. Fiskrækt hefur verið stunduð hér á landi um áratuga skeið til að auka fiskgengd í ám. Sú ræktun byggir á veiðum á klakfiski úr viðkomandi ám og eldi á seiðum í eldisstöðvum.

Mikilvægt er að tryggja að eldislax rati ekki í þessa ræktun, þar sem slíkt getur aukið erfðablöndum í ám til muna. Í mörgum tilfellum eru strokulaxar auðþekktir á útlitseinkennum, t.d. skemmdum á uggum og eyddum tálknabörðum. Mun erfiðara getur reynst að þekkja strokulaxa sem sloppið hafa snemma í eldisferlinum, þar sem hefðbundin útlitseinkenni eru ekki eins áberandi. Sjónrænt mat er ekki nægjanlega öruggt til að fjarlægja fiska sem eiga uppruna sinn úr sjókvíaeldi. Erfðagreiningar eru því nauðsynlegar til að tryggja að fiskur sem nýttur er til fiskræktar sé villtur. Matís hefur stundað erfðagreiningar á laxi um árabil, bæði til grunnrannsókna en einnig til að rekja uppruna strokulaxa sem veiðast í ám.

Þær erfðagreiningar sem Matís býður upp á byggja á 14 erfðamörkum, svokölluðum Salsea setti. Þessi erfðamörk eru ákaflega næm og hafa verið notuð til þess að meta stofngerð íslenskra laxa.  Einnig hafa erfðamörkin reynst vel til þess að rekja laxa sem veiðast sem meðafli í uppsjávarveiðum við Ísland til áa í Evrópu og Íslandi. Arfgerðarsettið er jafnframt nógu næmt til þess að greina milli eldislax og villts lax og getur greint blendinga af fyrstu kynslóð. Fyrstu kynslóðar blendingur er afkvæmi villts lax og fisks úr eldi.

Matís býður veiðifélögum upp á erfðagreiningar á fiski sem til stendur að nýta í fiskrækt.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Dr. Sæmund Sveinsson, fagstjóra í erfðafræði.