Fréttir

Matís með kynningu á Landsmóti hestamanna

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Frábært Landsmót Hestamanna var haldið á Vindheimamelum í blíðskapar veðri vikuna 26. júní – 3. júlí sl. Er það mál manna að vel hafi tekist til með alla umgjörð og hestakosturinn verið góður. Matís var með kynningu á Landsmótinu þar sem Guðbjörg Ólafsdóttir kynnti m.a. erfðagreiningar hesta og hunda.

Erfðagreiningar á dýrum eru ekki algengar á Íslandi og er Matís eina fyrirtækið sem hefur markvisst byggt upp erfðagreiningar á dýrum hér á landi. Til að mynda þá erfðagreinir Matís alla hesta fyrir WorldFengur, upprunabók íslenska hestsins, en WorldFengur safnar saman upplýsingum um íslenska hesta innan landa FEIF (alþjóðasamtök eigenda íslenska hestsins) og eru þær aðgengilegar á vefnum.

Landsmót 2011

WorldFengur er samstarfsverkefni Bændasamtaka Íslands og FEIF um að þróa einn og viðurkenndan miðlægan gagnagrunn um íslenska hestinn hvar sem er í heiminum. Í WorldFeng er að finna viðamiklar upplýsingar um á þriðja hundrað þúsund íslenskra hesta og eykst fjöldi þeirra á hverjum degi. Mætti t.d. finna upplýsingar um ættartölu, afkvæmi, kynbótadóma, eigendur, ræktendur, kynbótamat, liti, örmerki og fleira. Einnig hefur WorldFengur að geyma um 5.000 myndir af kynbótahrossum.

Markmið Matís er að nýta erfðatækni til DNA greininga af ýmsu tagi, t.d. hestagreiningar eins og greint er frá hér á undan. Verkefnin felast m.a.í erfðagreiningum á nytjastofnum og villtum stofnum og úrvinnslu gagna ásamt raðgreiningum á erfðaefni lífvera og leit að nýjum erfðamörkum og þróun á erfðagreiningarsettum.

DNA greiningar eru m.a. notaðar í fiskeldi til að velja saman fiska til undaneldis. Þetta getur hraðað kynbótum og aukið varðveislu erfðabreytileikans. Á villtum stofnum eru erfðagreiningar notaðar til rannsókna á stofnum og stofneiningum. Má þar nefna lax, þorsk, leturhumar, síld, sandhverfu, langreyði o.fl. tegundir. Nota má erfðagreiningar við rekjanleikarannsóknir og tegundagreiningar hvort sem um er að ræða egg, seiði, flak úr búðarborði eða niðursoðinn matvæli.

Erfðagreiningar hafa verið notaðar í mannerfðafræði undanfarna áratugi en þessari tækni er nú í vaxandi mæli beitt í dýrafræði og sér í lagi er hún mikilvæg við rannsóknir á villtum sjávarstofnum. Þá er einnig mikilvægt markmið að þróa svipgerðartengd erfðamörk en góð erfðamörk eru grundvöllur árangursríkra rannsókna af þessu tagi.

Nánari upplýsingar veitir Anna K. Daníelsdóttir, sviðsstjóri Öryggis, umhverfi og erfða.