Ókeypis aðgangur að upplýsingaveitu um íslenskt kjöt. Nýr upplýsingavefur um kjöt var opnaður fyrir skömmu á vefslóðinni www.kjotbokin.is.
Það var Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, sem opnaði vefinn formlega þegar hann hringdi í höfuðstöðvar Matís ofan af Holtavörðuheiði en þar var hann í göngum ásamt fleiri Borgfirðingum. Vefbókin var kynnt
á opnu húsi hjá Matís, sem er útgefandi kjötbókarinnar.
Vefrit í stað gömlu bókarinnar Í kjötbókinni, sem er ítarlegt vefrit um kjöt, verður til að byrja með einungis að finna upplýsingar um lambakjöt en aðrar kjöttegundir munu koma í kjölfarið ef áætlanir útgefanda ganga upp. Vefritinu er ætlað að koma í staðinn fyrir gömlu kjötbókina sem gefin var út árið 1994. Markhópur bókarinnar er fjölbreyttur en víst er að nýja útgáfan
mun koma sér vel í kjötvinnslum, hjá sláturhúsum, nemendum, bændum og ekki síst kjötkaupendum sem vilja fræðast um kjötvörurnar. Aðgangur að kjötbókinni er ókeypis og ekki er fyrirhugað að selja aðgang að vefnum í framtíðinni. Vandaðar myndir og fjölbreyttar upplýsingar Í nýju bókinni eru vandaðar myndir af kjötinu, upplýsingar um kjötmat og það hvaðan úr skrokk einstakir vöðvar eru teknir, stærð og þyngd stykkja ásamt öllum heitum þeirra. Hægt er að prenta út upplýsingaspjöld um hvern bita og nálgast margskonar efni sem tengist kjöti, m.a. um prótein-, fitu- og kolvetnainnihald. Númerakerfi sem m.a. er notað í erlendri markaðssetningu á lambakjöti nær yfir alla bita en það gerir samskipti á milli kjötkaupenda og seljenda auðveldari en áður.
Auðvelt að uppfæra
Að sögn Óla Þórs Hilmarssonar, kjötiðnaðarmeistara hjá Matís og eins af höfundum bókarinnar, verður auðvelt að bæta við efni í vefbókina eftir því sem tímar líða. „Það opnast á ýmsar tengingar í gegnum vefinn í framtíðinni. Í nágrannalöndum okkar eru svona vefir tengdir beint við fyrirtækin sem setja þar inn ýmsar upplýsingar um sínar vörur, m.a. efnainnihald og næringargildi,“ segir Óli Þór.
Það eru þau Guðjón Þorkelsson, Óli Þór Hilmarsson og Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís sem eiga veg og vanda af gerð bókarinnar en verkefnið hlaut meðal annars stuðning hjá Markaðsráði kindakjöts. Vefritið er í raun sett upp eins og hefðbundin bók á Netinu en grafísk hönnun var á hendi Port hönnunar, vefinn forritaði Einar Birgir Einarsson og Odd Stefán ljósmyndari tók flestar ljósmyndir.
Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.
Ofangreind frétt birtist fyrst í Bændablaðinu 15. september sl.