Fréttir

Matvæladagur Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands – forstjóri Matís stjórnar fundi 18. október nk!

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) boðar til Matvæladags MNÍ þriðjudaginn 18. október næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica hóteli. Matvæladagurinn er árviss viðburður sem haldinn hefur verið frá árinu 1993 og er nú haldinn í nítjánda sinn. 

Matís tekur stóran þátt í deginum en þess má geta að auk fundarstjórnar munu margir starfsmenn Matís halda erindi. Auk þess er markaðsstjóri Matís í undirbúningsnefnd Matvæladags. Dagskrá Matvæladags 2011 má finna hér.

Matvæladagur MNÍ 2011 ber yfirskriftina Heilsutengd matvæli og markfæði.  Megininntak dagsins þetta árið er vöruþróun, framleiðsla, rannsóknir og markaðssetning á heilsutengdum matvælum og markfæði úr íslensku hráefni. Flutt verða fjórtán stutt erindi sem gefa innsýn í umfjöllunarefnið. Meðal annars verður fjallað um íslenskt morgunkorn, lýsi, próteindrykki, sósur úr fiskroði, notkun þangs í matvælaframleiðslu, heilsufullyrðingar á matvælum og D-vítamínbætingu matvæla.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, mun setja ráðstefnuna og fundarstjóri er Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Matvæladagur 2011

Við setningu ráðstefnunnar mun Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, afhenda Fjöregg MNÍ, en það er verðlaunagripur sem veittur er fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. Tilnefningar til Fjöreggs MNÍ árið 2011 má finna á heimasíðu MNÍ, www.mni.is. Nánari upplýsingar um tilnefningarnar veitir Borghildur Sigurbergsdóttir, borghildurs(at)gmail.com, gsm 896-1302.

Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is, en skráningu lýkur kl. 13:00, mánudaginn 17. október. Almennt þátttökugjald er 4.500 kr., en nemar þurfa aðeins að greiða 3.000 kr. Ef skráning á sér stað eftir 14. október hækkar þátttökugjald um 1000 kr. Ráðstefnugögn og léttar veitingar eru innifaldar í verði en dagskráin stendur frá kl. 12:00 til 18:00 og er birt á heimasíðu MNÍ en þar birtast einnig fréttir af ráðstefnunni þegar nær dregur svo og listi yfir þá sem kynna munu sínar vörur og rannsóknir á þessu sviði.

Matvæladagurinn er opinn almenningi og er áhugafólk um matvæli og næringu hvatt til að mæta.

Nánari upplýsingar veitir Fríða Rún Þórðardóttir, 898-8798, frida@isport.is.