Fréttir

Matís stendur fyrir ráðstefnu: Kjarn- og rafeindaspunarannsóknir í matvælaiðnaði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ráðstefnan 9th International Conference on the Application of Magnetic Resonance in Food Science verður haldin í Norræna húsinu í Reykjavík dagana 15.-17 september næstkomandi á vegum Matís ohf.

Ráðstefnan er sú níunda í röð vinsællar ráðstefnuraðar, sem haldin er á tveggja ára fresti. Þar koma helstu sérfræðingar innan kjarn- og rafeindaspunarannsókna (e. Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum í heiminum í dag saman ásamt þátttakendum frá iðnaðinum og víðar. Að þessu sinni er lögð áhersla á notkun tækninnar í fiski- og kjötrannsóknum og hvernig nýta megi tæknina í framleiðsluferlum matvæla almennt.

Þó svo að kjarn- og rafeindaspunarannsóknir séu ekki nýjar af nálinni hefur tæknin aðeins verið notuð við matvælarannsóknir í takmörkuðum mæli hér á landi til þessa. Með því að halda ráðstefnuna hér á Íslandi er leitast við að kynna mikla möguleika og kosti þessarar tækni fyrir íslenskum rannsóknamönnum og iðnaði og dýpka þannig skilning íslensks matvælaiðnaðar og rannsóknamanna á hegðun og þær breytingar sem matvæli verða fyrir í framleiðsluferlum sínum.

Erindi sem flutt verða á ráðstefnu verða einnig birt í formi vísindagreina í glæsilegu ráðstefnuriti, sem dreift verður til allra þátttakenda. Ritið er gefið út af the Royal Society of Chemistry í Bretlandi.  Einnig verða öll veggspjöld sem kynnt verða á ráðstefnunni birt á heimasíðu hennar að ráðstefnunni lokinni.

Frekari upplýsingar um dagskrá og erindi ráðstefnunnar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar www.matis.is/mrinfood2008 Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á netfangið mrinfood2008@matis.is eða í síma +354 422 5091 (María Guðjónsdóttir). 

Ráðstefnan er styrkt af Matís ohf., Háskóla Íslands, Nordic Marine Academy, Bruker Optics, Stelar, Woodhouse Publishing og Royal Society of Chemistry í Bretlandi.