Fréttir

Matís tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu EuroFIR

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tilgangurinn með EuroFIR (European Food Information Resource) er að bæta gögn um efnisinnihald matvæla. Verkefnið miðar að því að leita leiða til að miðla upplýsingunum með gagnagrunnum og á netinu.

Þannig styrkist samkeppnishæfni smárra og stórra matvælafyrirtækja í Evrópu. Nú er unnið að því að þróa staðla, gæðamatskerfi og skilgreiningar á fæðutegundum og samhæfa gagnagrunna. Starfið auðveldar Íslendingum að fá gögn frá öðrum Evrópulöndum, ekki síst með rafrænum hætti. Afar mikilvægt er að Íslendingar taki áfram þátt í starfinu þegar verkefninu lýkur en evrópskt félag tekur við hlutverki EuroFIR á næsta ári.

Fjöldi vörumerkja fyrir matvæli á Vesturlöndum skiptir nú tugum þúsunda. Oft þarf að leggja fram upplýsingar um næringargildi þessara vara og matvælaiðnaðurinn þarf að finna hagkvæmar leiðir til að láta þessar upplýsingar í té. Afrakstur EuroFIR verkefnisins leiðir til þess að iðnaðurinn fær áreiðanlegri gögn en áður og þau eru skilgreind með sama hætti í Evrópulöndum.

Á vegum Matís er nú unnið að því að endurskipuleggja ÍSGEM gagnagrunninn um efnainnihald matvæla til að uppfylla þær gæðakröfur sem hafa verið settar fram í EuroFIR verkefninu Gagnagrunnurinn hefur í rúmt ár verið aðgengilegur á vefsíðu Matís. Þar er að finna upplýsingar um næringarefni í fjölmörgum fæðutegundum. Á vefsíðu EuroFir er að finna upplýsingar fyrir matvælaiðnað um heilsufullyrðingar, staðla fyrir gögn og skýrslur.

EuroFir verkefninu lýkur á árinu 2009 og er þegar farið að vinna að því að evrópskt félag (non-profit organization) haldi áfram starfinu við að samhæfa gagnagrunna, uppfæra verklagsreglur og miðla þekkingu. Óskað hefur verið eftir því að þátttakendur í EuroFIR verkefninu haldi samstarfinu áfram innan hins nýja félags.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Grein þessi birtist nú síðast á bls. 5 í Íslenskum iðnaði, fréttabréfi Samtaka Iðnaðarins.