Fréttir

Meistaravörn í fiskeldislíftækni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fimmtudaginn 28. júní mun Hugrún Lísa Heimisdóttir verja meistararitgerð sína á sviði líftækni við auðlindadeild HA. Vörnin byrjar kl. 10:00 og verður í stofu R312 á Borgum. Tveir starfsmenn Matís voru leiðbeinendur Hugrúnar í náminu.

Heiti ritgerðar Hugrúnar Lísu er „Effects of fish protein hydrolysate-enhanced live prey on cod (Gadus morhua L.) larval development: Protein expression and stimulation of selected innate immune parameters“

Í ritgerðinni fjallar Hugrún Lísa um áhrif fæðudýra sem auðguð voru með fiskpeptíðum á vöxt og þroska þorsklirfa. Í rannsóknum sínum notaði Hugrún Lísa tvenns konar aðferðir. Í fyrsta lagi beitti hún ónæmisvefjalitun til að meta áhrif peptíðbættu fæðudýranna á lykilþætti í ósérhæfðri ónæmissvörun þorsklirfanna. Í öðru lagi beitti Hugrún Lísa prótínmengjagreiningu með tvívíðum rafdrætti og kennigreiningu prótína með tvímassagreiningu til að rannsaka áhrif peptíðbættu fæðudýranna á prótíntjáningu í meltingarvegi lirfanna, en prótínmengjagreining á meltingarvegi þorsks hefur ekki verið reynd áður svo vitað sé og gefa niðurstöður til kynna að þessi aðferðafræði geti hentað til rannsókna á svörun þorsklirfa við breytingum á fóðursamsetningu. Ónæmisvefjalitunin gaf jafnframt til kynna að auðgun fæðudýra með fiskpeptíðum stuðli að sterkbyggðari vefjalögum og hafi þannig jákvæð áhrif á þroskun þorsklirfa.

Hugrún Lísa lauk bakkalárprófi (B.Sc.) í líftækni frá auðlindadeild HA vorið 2010. Hún hefur unnið rannsóknavinnu sína og ritgerð undanfarin tvö ár og hefur hlotið til þess styrki frá Rannsóknasjóði HA, Matís ohf. og Iceprotein Ltd.

Leiðbeinendur Hugrúnar Lísu eru dr. Oddur Vilhelmsson, dósent við auðlindadeild HA, dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís ohf., og Jónína Jóhannsdóttir, M.Sc., sérfræðingur hjá Matís ohf. Andmælandi er dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, aðjunkt við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Nánari upplýsingar veitir Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Matís.

Ofangreind frétt birtist fyrst á heimasíðu Háskólans á Akureyri, www.unak.is.