Fréttir

Mikilvægi örvera fyrir íslenskan sjávarútveg – úthlutun öndvegisstyrkja Rannís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Rannís úthlutaði styrkjum úr Rannsóknasjóði fyrir styrkárið 2016 í síðasta mánuði. Matís hlaut tvo öndvegisstyrki, þar af er Matís með verkefnastjórn í öðru þeirra, en báðir styrkirnir tengjast örverurannsóknum. Matís hlaut einnig rannsóknastöðu- og doktorsnemastyrki sem  tengjast annarsvegar rannsóknum á örverum og hinsvegar makrílrannsóknum.

Verkefnin verða unnin í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, HÍ, Náttúrufræðistofnun, ÍSOR ásamt alþjóðlegum samstarfsaðlium. Annar öndvegisstyrkurinn, MIME, mun nýtast til þess að fá betri heildarsýn á fjölbreytileika örvera í hafinum í kringum Ísland og hlutverk þeirra í fæðukeðjunni. Upplýsingar um fjölbreytileika örvera á íslensku hafsvæði geta haft mikið hagnýtt gildi fyrir íslenskan sjávarútveg.

Um öndvegisverkefnið MIME

Rannsóknir á fjölbreytileika sjávarörvera hafa aukist mikið undanfarin ár en litlar upplýsingar eru til um örverur í hafinu umhverfis Ísland. Markmið verkefnisins er að rannsaka örverufjölbreytileika í sýnum sem hefur verið safnað árlega í sjö ár á skilgreindum sýnatökustöðvum í kringum landið. Í verkefninu verða áhrif hitnunar andrúmslofts og súrnun sjávar rannsökuð m.t.t. örverufjölbreytileika og efnahringrása í sjónum. Þrjár tilgátur hafa verið settar fram: „a) Mikill munur er á örverusamfélögum fyrir norðan, og sunnan við landið, b) Synechococcus finnst í Norður-Atlantshafi við Ísland og í köldum Pólsjó en gegnir þó ekki sambærilegu lykilhlutverki sem frumbjarga örvera eins og við lægri breiddargráður, og c) Súrnun sjávar gerist hraðar á norðlægum slóðum í samanburði við suðlæg (temperate og tropical) svæði og hefur þess vegna meiri áhrif á sjávarörverur á norðlægum breiddargráðum sem veldur breytingum á fjölbreytileika og fjölda þeirra“. Svör við þessum tilgátum fást með því að nota nýjustu tækni í DNA raðgreiningu á genamengjum og gena tjáningu ásamt notkun örverugreinis. Rannsóknaráherslur verða lagðar á að bera saman mismunandi einkenni hafsvæða eins og kaldan pólsjó úr norðri við heitari sjó sem kemur úr suðri með Irminger straumnum. Haffræði- og lífupplýsingagögn verða sett í samhengi með nýju forriti (MB3-IS) til að skoða samvirkni á milli örveranna og umhverfisbreyta. Nýir stofnar örvera verða einangraðir og þeim lýst.

Nánari upplýsingar veitir verkefnisstjóri MIME, dr. Viggó Þ. Marteinsson hjá Matís.