Framleiðsla á öruggum, heilnæmum matvælum krefst þess að þau séu framleidd úr góðu hráefni, en ekki síður að fyllsta hreinlætis sé gætt við framleiðslu þeirra. Þrif í matvælaiðnaði eru hins vegar dýr og því mikilvægt að þau gegni sínu hlutverki, án þess að kosta fyrirtækin og umhverfið of mikið.
Fyrir nokkrum árum var talsvert rætt um hugmyndafræði er nefnist hreinni framleiðslutækni og var upphaflega komin frá Umhverfisstofnun BNA og gekk út á að draga úr mengun strax á mengunarstað. Þessi hugmyndafræði náði einnig til matvælaiðnaðar, þar sem fyrirtæki reyndu m.a. að nýta hráefnið sem best, minnka rafmagns- og vatnsnotkun og, síðast en ekki síst, draga úr notkun hreinsiefna.
Á meðal þess sem matvælafyrirtæki hafa gert til að minnka notkun hreinsiefna er að endurbæta hönnun framleiðslutækja og gera þau þrifavænni, en einnig að rannsaka þá fjölbreyttu flóru örvera sem þrífst í mismunandi matvælavinnslum og útheimtir ólík viðbrögð. Það er ekki magn efnanna sem máli skiptir heldur virkni þeirra.
Árið 2005 hófst verkefni á Rf sem kallast Bætt notkun hreinsiefna í fiskiðnaði og lækkun þrifakostnaðar og er áformað að því ljúki síðar á þessu ári. Verkefnið er unnið í samvinnu Rf og Tandurs hf., sem er fyrirtæki sem sérhæfir sig í þjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana varðandi hreinlætismál og hreinsiefni.
Í verkefninu, sem fjármagnað er af Rf og AVS sjóðnum, er ætlunin að finna leiðir til að auka virkni þrifa í vinnsluumhverfi sjávarafurða, um leið og dregið verður úr notkun hreinsiefna og kostnaði við þrif. Tækjasjóður Rannís styrkti kaup á sérstökum þvottabúnaði í verkefninu, sem nú er búið að setja upp í vinnslusal Sjávarútvegshússins og prófaður var í morgun.