Fréttir

Óæskileg efni í íslensku sjávarfangi langt undir hættumörkum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á fréttamannafundi sem haldinn var í Sjávarútvegshúsinu í dag voru kynntar niðurstöður úr vöktunarverkefni sem Rf vinnur að fyrir sjávarútvegsráðuneytið. Niðurstöðurnar sýna að íslenskt sjávarfang inniheldur mjög lítið af óæskilegum efnum.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Ásta Margrét Ásmundsdóttir verkefnisstjóri hjá Rf kynntu á fundinum nýja skýrslu Rf um niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarafurðum, sem gerð var árið 2004.

Verkefnið hófst reyndar árið 2003 að frumkvæði ráðuneytisins og mun verða haldið áfram á næstu árum.

Skýrslan sem kynnt var í dag heitir Undesirable substances in seafood products– results from the monitoring activities in 2004 og inniheldur niðurstöður fyrir annað ár vöktunarinnar.  Líkt og kom í ljós eftir mælingar árið 2003 sýna niðurstöðurnar hennar að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og þeim tíu gerðum af varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri) sem mæld voru í rannsókninni. 

Svokölluð bendi-PCB efni mælast einnig langt undir þeim hámarksgildum sem í gildi eru í viðskiptalöndum okkar.  Sama má segja um kvikasilfur, sem mælist í versta falli í magni sem er 1/10 af hámarki sem samþykkt hefur verið í Evrópusambandinu.

Lesa skýrslu