Fréttir

Nýr tækjabúnaður auðveldar greiningu á Salmonellu og Listeriu í matvælum og fóðri

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís í Neskaupstað hóf nýverið mælingar á Salmonellu og Listeriu monocytogenis með PCR aðferð. Unnið hefur verið að því síðastliðna mánuði að bjóða upp á nýjar, hraðvirkar aðferðir við örverumælingar í matvælum og fóðri með notkun PCR tækni auk rótamín mælinga í mjöli. „Við erum ánægð að greina frá því að tilkoma þessarar tækni stóreykur þá þjónustu sem við getum veitt viðskiptavinum okkar“ segir Stefán Eysteinsson, stöðvarstjóri.

Með þessari aðferð er mögulegt að vinna sýni hraðar og betur en einungis þarf að forrækta Salmonellu í sólarhring og Listeriu í tvo sólarhringa í hefðbundnu bakteríuæti áður en PCR próf er framkvæmt.

„Heildar greiningartími fyrir salmonellu styttist því úr 4 sólarhringum í 1 sólarhring og fyrir Listeriu úr 6 sólarhringum í 2 sólarhringa.“

Þetta hefur í för með sér að mögulegt er að greina bakteríur í sýnum fyrr og bregðast svo við með viðeigandi hætti.

Rótamín (biogenic amines) hafa síðastliðin ár verið notuð sem ákveðnir vísar á gæði mjöls og hefur fiskimjölsiðnaðurinn á svæðinu kallað eftir því að hægt verði að framkvæma rótamín mælingar á starfsstöð Matís í Neskaupstað. Með komu HPLC tækis á starfstöðina verður hér eftir unnt að mæla rótamín í mjöli í Neskaupstað. Horft er til þess að koma tækisins muni stytta biðtíma eftir niðurstöðum og auka við fjölbreytileika mælinga í Neskaupstað.

Upptaka þessara nýju aðferða á starfstöðinni í Neskaupstað er til marks um áframhaldandi uppbyggingu Matís á landsbyggðinni en ljóst er að þessar aðferðir munu skipta sköpum fyrir viðskiptavini.

Í tilefni þess langar okkur hjá Matís í Neskaupstað að bjóða ykkur, í heimsókn til okkar miðvikudaginn 6. mars kl 16:00, í Múlann, Bakkavegi 5.

Það væri mjög gaman að sjá ykkur sem flest. Endilega staðfestið komu ykkar og áætlaðan fjölda með því að skrá nafn og netföng hér!