Fréttir

Nýjar tæknilausnir til beitningar og meðhöndlunar á fiski

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú er lokið verkefninu „Vinnsluferill línuveiðiskipa“ sem hafði það að markmiði að þróa og hanna nýjar tæknilausnir til beitningar og meðhöndlunar á fiski eftir veiði um borð í línuveiðiskipum með það að leiðarljósi að hámarka hráefnisgæði, auka vinnuhagræði og draga úr kostnaði við ferlið.

Farið var í sjóferð um borð í Stefni ÍS 28 til að prófa kæli og blóðgunarkörin þar um borð sem smíðuð og framleidd eru af 3X Technology. Tilgangur þeirrar ferðar var að finna út hvaða vinnsluaðferð skilaði bestum árangri m.t.t gæði hráefnisins. Prófaðar voru mismunandi aðferðir (mismunandi hópar) með blóðgun, slægingu og kælingu hráefnisins um borð. Til að meta gæðin var síðan lagt mat lit og los flakana í vinnslu Hraðfrystihússins Gunnvarar á Ísafirði.

Helstu niðurstöður þessa verkefnis gáfu til kynna að með því að láta fiskinn blæða í sjó, með miklum vatnsskiptum, eftir að búið er að slægja fiskinn og áður en hann fer í kælingu, gefur betri litar holdgæði á flakinu. Þegar los flakana var skoðað í skynmatinu, þá reyndist ekki nægjanlega marktækur munur á milli hópana, þ.e.a.s engin ein vinnsluaðferð skar sig úr í gæðum m.t.t loss.

AVS_linuveidiskip_2

Línuritið hér fyrir neðan sýnir plott þriggja hitanema fyrir hóp nr 1. Einn nemi í hvorum fisk fyrir sig. Fiskarnir voru síðan raðaðir í 440L kar niðri í lest, einn fiskur staðsettur neðst, einn í miðju og einn efst. Sjá má einnig af línuritinu hversu snögg kæling fisksins verður niður í ca -0,5°C á 25 mínútum við að nota krapa-kælikerin. Síðan er fisknum komið fyrir niður í lest þar sem hitastigið helst áfram vel niður fyrir núll gráðurnar þar til í vinnslu er komið nokkrum dögum seinna.

AVS_linuveidiskip_1

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Matís ohf, 3X Technology ehf, Vísir hf, Brim hf, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og Samherji hf. AVS rannsóknasjóður (www.avs.is) og Tækniþróunarsjóður styrkja þetta verkefni.

Út kom skýrsla vegna verkefnisins en hún er lokuð. Skýrsluágrip má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Róbert Hafsteinsson, robert.hafsteinsson@matis.is.