Fréttir

Nýr norrænn matur: hvað er það?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Aukin eftirspurn er eftir matvælum sem búa yfir sérstökum hreinleika og eiginleikum sem taldir eru bæta heilsu fólks. Norðurlönd hafa sterka stöðu hvað þetta varðar í alþjóðlegu samhengi og þá sérstöðu má nýta til að skapa viðskiptatækifæri. Einkum er talið er að byggðalög sem eiga undir högg að sækja efnahagslega geti nýtt þennan styrkleika sér til framdráttar.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig er markmiðið að efla samstarf landanna á sviði matvælaframleiðslu og tengja hana verkefnum á sviði ferðaþjónustu, heilbrigðisþjónustu, byggðaþróunar og viðskipta.

Helstu einkenni norrænna hráefna: Hreinleiki, bragðgæði og hollusta

Samstarfsáætlun um ,,nýjan norrænan mat og matargerðarlist” á rætur að rekja til þess að innan Evrópu er sívaxandi áhersla á staðbundin sérkenni matvæla og því fólki fjölgar sem hefur áhuga á að kynnast og upplifa mat sem tengist tilteknum svæðum. Þó Norðurlöndin hafi á ýmsan hátt ólíkar forsendur til matvælaframleiðslu hafa matreiðslumenn á Norðurlöndum í vaxandi mæli dregið fram atriði sem einkenna löndin sem heild. Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta.

Skapa jákvæðara viðhorf til eigin matarmenningu

Sérstakur stýrihópur var stofnaður til að vinna að áætluninni. Í honum sitja fyrir hönd Íslands Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá Ferðamáladeild Hólaskóla, Háskólans á Hólum. Í hverju landi hafa einnig verið tilnefndir “sendiherrar” sem hafa það verkefni að miðla þekkingu og vekja athygli á norrænni matargerð. Sendiherrarnir vinna að kynningum á norrænni matargerð og menningu. Íslensku sendiherrarnir eru Sigurður Hall og Baldvin Jónsson.

Meðal verkefna stýrihópsins er að skilgreina merkingu hugtaksins ”Nýr norrænn matur og matargerðarlist”. Taka þarf tillit til ólíkra matvælahefða innan Norðurlandanna og skapa jákvæðara viðhorf meðal Norðurlandabúa til eigin matarmenningar. Hvatt verður til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og stutt við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.

NÝR NORRÆNN MATUR Í HNOTSKURN

  • Aukin eftirspurn er eftir matvælum sem búa yfir sérstökum hreinleika og eiginleikum sem taldir eru bæta heilsu fólks. Norðurlönd hafa sérstöðu í þessum efnum.
  • “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda.
  • Sívaxandi áhersla er á staðbundin sérkenni matvæla í Evrópu.
  • Fólki fjölgar sem hefur áhuga á að kynnast og upplifa mat sem tengist tilteknum svæðum.
  • Norrænir matreiðslumenn hafa í vaxandi mæli dregið fram atriði í matargerð sem einkenna Norðurlönd sem heild.
  • Helstu einkenni norrænna hráefna eru talin vera hreinleiki, bragðgæði og hollusta.
  • Sérstakur stýrihópur hvetur til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og styður við staðbundna hráefnanotkun og matvælaframleiðslu.