Fréttir

Nýtum verðmæti úr vatni betur og minnkum ferskvatnsnotkun við matvælavinnslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ísland hefur lengi verið framarlega í nýtingu svokallaðra hliðarhráefna og eitt af þeim hráefnum sem áhugavert er að meta bæði með tækifæri til verðmætasköpunar og umhverfismál fyrir augum er vatn frá t.d. fiskvinnslum og landeldisstöðvum. Verkefnið Accelwater sem Matís vinnur að um þessar mundir snýr að því að finna lausnir til þess að nýta verðmæti úr vinnsluvatni og besta vatnsnotkun í sjávarútvegi og eldi.

Hildur Inga Sveinsdóttir heldur utan um þá verkhluta sem Matís sinnir í verkefninu en það er unnið í samstarfi 17 aðila frá fimm Evrópulöndum með styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Horizon 2020. „Við ákváðum að taka þátt í verkefninu í samstarfi við sterka iðnaðarsamstarfsaðila hérlendis og stefndum á að nýta vinnuna til þess að meta þau tækifæri sem til staðar eru á þessu sviði hérlendis“. Verkefninu er stýrt af gríska tæknifyrirtækinu Agenso og koma að því margir þátttakendur, bæði úr iðnaði og rannsóknarumhverfi. Íslenskir þátttakendur verkefnisins eru auk Matís Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, Útgerðarfélag Akureyrar og Samherji Fiskeldi.

En hvað eru hliðarhráefni?

Þetta er í raun spurning um orðnotkun en gjarnan er talað um hliðarstrauma eða hliðarhráefni. Þá er átt við hráefni sem þú getur fengið út úr vinnslu sem er ekki aðal varan sem þú ert að sækja. Fiskveiðar og -vinnsla eru gott dæmi en þar er farið á veiðar til þess að fá fiskflak til neyslu en hliðarstraumar eru þá önnur hráefni sem hafa kannski áður verið skilgreind sem úrgangur eða rusl. Þetta geta t.d. verið hausar, roð, innyfli eða hvað sem er en þegar þú meðhöndlar þessa hluti rétt þá eru tækifæri til þess að fá mikið virði út úr þeim.

Við reynum að nota orðið hliðarhráefni því þannig gefum við til kynna að þetta sé hráefni sem við getum notað í eitthvað, ekki bara „auka drasl“ sem við þurfum helst að losna við. Við leggjum áherslu á að hætta tala um þetta sem úrgang eða rusl vegna þess að það vekur oft upp neikvæð hugrenningartengsl sem gefa ranga mynd af hráefninu. Sem dæmi má nefna að undanfarin ár hafa verið þróaðar margvíslegar verðmætar vörur úr fiskiroði, sem áður fyrr hefði þótt fráleitt að væri mögulegt.

Ferskvatnsnotkun við matvælavinnslu og betri nýting

Aðal markmið verkefnisins er að nýta verðmæti úr vatni og minnka ferskvatnsnotkun við matvælavinnslu. Erlendir samstarfsaðilar vinna að tilraunum innan virðiskeðju í tómatarækt, kjötvinnslu, mjólkuriðnaði og við bruggun. Hérlendis er áhersla lögð á landvinnslu hvítfisks og landeldi laxa. Lögð hefur verið áhersla á að meta stöðuna með greiningu umhverfisáhrifa og notkunar, þá hvaða auðlindir eru notaðar í þessum mismunandi ferlum og svo hvaða möguleg tækifæri til annarsvegar sparnaðar vatns- og orkuauðlinda eru til staðar og hins vegar hvaða möguleikar eru til verðmætasköpunar úr helstu vatnsstraumum.

Verkefnið er enn í gangi og rúmt ár eftir af þeirri vinnu sem áætluð er. Þær niðurstöður sem safnast hafa hingað til sýna að Íslendingar nota almennt mikið vatn við vinnslu og tækifæri eru til að minnka þá notkun en þær aðferðir sem áætlað er að meta í verkefninu eru í vinnslu og spennandi verður að sjá hverju þær skila. Að auki eru til staðar mikil tækifæri í tengslum við nýtingu hliðarstrauma frá landeldi, sérstaklega fiskeldisseyru eða fiskeldismykju, en hún inniheldur mikið magn af verðmætum næringarefnum sem mögulegt er að hægt sé að nýta til áburðargerðar svo dæmi sé tekið. Tilraunir og greiningar á tækifærum sem liggja í því hráefni standa nú yfir samhliða mati á öryggi þeirra.

Stefán Þór Eysteinsson í lífmassaveri Matís í Neskaupstað

Vatnið er verðmæt auðlind

Sú umræða sem skapast hefur um verkefnið heldur á lofti þeirri mikilvægu staðreynd að við megum ekki taka því sem sjálfsögðum hlut að hér á Íslandi sé gott aðgengi að auðlindinni sem hreint ferskvatn er og pössum okkur að nýta það ávallt sparlega eins og hægt er. Einnig hefur verkefnið komið inn í mikilvæga umræðu tengda uppbyggingu landeldis hérlendis.

Niðurstöður verkefnisins verða birtar í opnum vísindaritum og kynntar viðeigandi hagaðilum eftir því sem við á svo þær munu nýtast öðrum aðilum í iðnaði hérlendis og erlendis. Niðurstöður munu auk þess geta nýst við stefnugerð og uppsetningu og endurskoðun ferla í fiskvinnslu og landeldi en það síðastnefnda er ört vaxandi iðnaður á Íslandi í dag.

Hlaðvarpsþáttur um Accelwater

Hildur Inga var viðmælandi í Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu á dögunum. Þar sagði hún frá þessu áhugaverða verkefni og ástríðan fyrir því að koma inntaki Accelwater verkefnisins skýrt og örugglega til skila skein í gegn. Þátturinn er bæði fróðlegur og hressandi en hann er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum og í spilaranum hér fyrir neðan.

Verkefnasíða

Fylgjast má með framvindu Accelwater á verkefnasíðu þess hér: AccelWater og á samfélagsmiðlum.