Fréttir

Ölum við fiska á diska framtíðarinnar?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Vöxtur fiskeldis á Íslandi hefur verið hægari en ætla mætti vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matavælaframleiðslu úr fiskmeti og þeir hafa gert hingað til. Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís telur að frekari rannsóknir og þróunarvinnu þurfi til að efla fiskeldi hérlendis.

Samkvæmt spám síðustu ára mun eftirspurn eftir fiskmeti og sjávarfangi aukast umtalsvert en ljóst þykir að veiðar á villtum fiski muni ekki anna þeirri eftirspurn ef fram fer sem horfir. Því eru vonir bundnar við fiskeldi og að eldisfiskur muni mæta aukinni eftirspurn.

„Fiskeldi hefur vaxið hratt á heimsvísu, en sami gangur hefur ekki verið í íslensku fiskeldi,“ segir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisaukningar og eldis hjá Matís. Hann segir Íslendinga hafa aflað upp undir 2% af heimsafla veidds fisks, en Íslendingar ali eingöngu um 0,01% af heildar fiskeldisframleiðslu heimsins. „Vilji Íslendingar gegna sama hlutverki við matvælaframleiðslu úr fiskmeti hér eftir sem hingað til, er ljóst að mikið verk er fyrir höndum,“ segir Arnljótur og bætir við að Íslendingar hafi gert sér vonir um mun öflugra fiskeldi hér á landi en reyndin hefur orðið.  „Hvort sem sjónum er beint að fæðuöryggi á norðurslóðum eða öryggi þeirra matvæla sem framleidd eru hér og seld víða um heim, er augljóst að íslenskt fiskeldi verður að vaxa. Því verður að vanda til verka við rannsóknir í þágu fiskeldis og við þróun þess hér á landi. Bleikja sem hefur fram að þessu borið uppi fiskeldi á Íslandi  er smátegund í hnattrænu samhengi,“ segir Arnljótur.

Lengi býr að fyrstu gerð

Arnljótur segir að við uppbyggingu á eldi sé að mörgu að hyggja og mikilvægt að beita vönduðum faglegum vinnubrögðum á öllum stigum eldisferla. „Margir þættir þar á meðal hreysti fiska er háð arfgerð þeirra. Vísbendingar eru um að þróun á fyrstu stigum eldis geti skilað ávinningi á síðari stigum og því þarf að huga vel að fyrstu gerð í eldinu þar sem gjörvileiki fiska getur komið í ljós snemma á lífsleiðinni. Til að hámarka arðsemi fiskeldis þarf að vanda atlæti fiskanna og huga að að hagkvæmni einkum við fóðurgerð og fóðrun.“

Veldisvöxtur ekki sjálfgefinn

„Sú var tíðin að spár um fiskeldi í framtíðinni virtust byggja á veldisvexti en nú eru spár Landsambands fiskeldisstöðva grundvallaðar á varfærnara mati þ.e. spá, háspá og lágspá. Þó Íslendingar ætli sér ekki að tvöhundraðfalda fiskeldisframleiðslu fram til 2030,  er ljóst að tækifæri eru til aukins eldis á Íslandi. Eldi á framandi tegundum kann að reynast tekjumyndandi fyrir samfélagið, einkum þar sem aldar tegundir gefa af sér afurðir sem seljast við hátt verð s.s. sæeyra eða Senegalflúra. Eins getur gæðalax skapað gjaldeyri, þó okkar sigur vinnist varla á magni geta gæði skilað verðmætum. Innkoma nýrra aðila í íslenskt fiskeldi, á borð við Fjarðarlax, Arnarlax og Stolt Sea Farm, gefur fyrirheit um að Íslendingar geti haslað sér völl í eldi fiska sem seljast á velborgandi mörkuðum.“

Að mati Arnljóts verða nýir og stórir sigrar vart unnir í fiskeldi nema með öflugu rannsókna- og þróunarstarfi. Hið sama gildir hvorttveggja um eldi og veiðar að meiru skiptir að sem hæst verð fáist fyrir allt það sem er framleitt fremur en að leggja ofurkapp á magn. Vert er að hafa það í huga þar sem útlit er fyrir að umfang fiskeldis á Vestfjörðum nái fyrr en seinna að jafna umfang veiða Vestfirðinga á villtum fiski.[1] „Með því að leggja fram fjármuni til að sinna rannsókna- og þróunarstarfi, má vinna markvisst að því að aðlaga fiskeldi að íslenskum aðstæðum sem eru ekki í einu og öllu sambærilegar við eldisaðstæður samkeppnislanda okkar.“

Rannsóknir og þróun lykilatriði

Menn leita stöðugt betri lausna og velta því steinum, stórum og smáum, innanlands sem utan til að auka, bæta og vanda fiskeldi. Við höfum mýmörg dæmi um rannsókna- og þróunarvinnu sem hefur t.a.m. birst sem niðurstöður í Matís skýrslum jafnt sem ritrýndum fræðigreinum, og eru hagnýttar við kennslu í fiskeldi hjá Hólaskóla, og verið innleiddar í starf Hafrannsóknarstofnunarinnar. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa þó ekki síst komið fiskeldisfyrirtækjum til góða og orðið til hagræðingar og virðisaukningar í starfsemi þeirra. Nýleg dæmi um vinnu af þessum toga má t.a.m. finna í sértækri ábendingu um hvar þörf sé á frekari rannsóknum hvað varðar fitusýrusamsetningu fóðurs fyrir feitari fiska.[2] Þá má einnig benda á greiningu SINTEF og fleiri á mögulegri þróun norræns fiskeldis til ársins 2030.[3]

 
 Úr skýrslu Trond Rosten ofl. Perspectives for sustainable development of Nordic aquaculture. [4] Matís var meðal þátttakenda í PABAN verkefninu. Myndin sýnir mikilvæg svæði fyrir vöxt norræns fiskeldis.
IS