Fréttir

Ráðherra á Matís fundi: bindur vonir við þorskeldi

Fiskeldi getur nýst afar vel við að byggja upp hagkvæma grein í íslenskum sjávarútvegi, ekki síst við firði á landsbyggðinni þar sem nægilegt rými er til staðar, að því er fram kom í máli Einars K. Guðfinnsonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á opnum fundi Matís um þorskeldi á Ísafirði. Hann segir að með því að hraða þróun í fiskeldi hér á landi sé mögulegt að margfalda framleiðslugetu fyrir greinina, skapa aukin atvinnutækifæri víða um land og útvega gott hráefni fyrir kröfuharða markaði. Hann varar hins vegar við gullgrafararstemmningu í tengslum við þorskeldið.

“Eldi er stór hluti af framleiðslu á sjávarfangi og fer stækkandi á heimsvísu. Því er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera virkir þátttakendur í rannsóknum og þróun á þessu sviði. Í þorskeldisrannsóknum hér á landi hefur verið unnið að því að seinka kynþroska þorsks eins og mögulegt er svo hann haldi áfram að stækka þannig að hægt verði að auka hagkvæmni í eldinu,” sagði ráðherra. Þá kom fram í máli hans að uppbygging þorskeldis á Íslandi í atvinnuskyni sé mjög mikilvægt en um leið áhættusamt langtímaverkefni sem krefst samstillts átaks opinberra aðila og einkafyrirtækja.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

“Við erum nú á þessum tímapunkti stödd á eins konar þröskuldi hvað þorskeldið áhrærir. Við þurfum að taka ákvarðanir um framtíðina og hvert skuli stefna. Þrotlaus, kostnaðarsöm og og þolinmóð vinna er að baki. Við höfum lært mikið og nú er komið að því að taka skrefin fram á við. Þótt öllum spurningunum hafi ekki verið svarað vitum við að það felast miklir möguleikar í þorskeldinu; möguleikar sem ég er ekki einn um að binda miklar vonir við.”

Ráðherra benti hins vegar á að þeir sem kæmu að fiskeldi yrðu engu að síður að gá að sér. “Mér finnst ég skynja núna dálítið svipaða umræðu um þorskeldið og í árdaga þeirrar atvinnustarfsemi. Gullgrafarastemminguna. Hún á lítinn rétt á sér. Þorskeldið krefst sem fyrr mikils fjármagns og þekkingar sem bara fæst af reynslu og með vísindalegri nálgun. Menn byggja ekki upp þorskeldi eins og hendi sé veifað. Það krefst allt annarra vinnubragða og gríðarlegrar ögunar. Það kennir okkur reynslan og er hún ekki alltaf ólygnust? Hér inni má finna menn með þessa miklu reynslu og þekkingu sem geta borið um allt þetta. Það er á grundvelli þeirrar reynslu sem ég held að við eigum að byggja okkar næstu skref. Og því tel ég að stjórnvöld eigi að styðja við slíka viðleitni af hálfu atvinnugreinarinnar sjálfrar, þar sem menn byggja á þeirri þekkingu sem hefur safnast upp innan fyrirtækjanna og í vísindasamfélaginu okkar,” sagði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

IS