Fréttir

Ráðstefna um notkun kjarnspunatækni í rannsóknum á matvælum í september

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dagana 15.-17 september n.k. verður ráðstefnan 9th International Conference on the Application of Magnetic Resonance in Food Science haldin í Norræna húsinu í Reykjavík. Það er Matís sem hefur veg og vanda af undirbúningi hennar. Að sögn Maríu Guðjónsdóttur, sem hefur haft veg og vanda af undirbúningi ráðstefnunnar hafa tæplega 100 manns, víðs vegar að úr heiminum þegar boðað þátttöku sína á ráðstefnuna.

Ráðstefnan er sú níunda í röð vinsællar ráðstefnuraðar, sem haldin er á tveggja ára fresti. Þar koma helstu sérfræðingar innan kjarn- og rafeindaspunarannsókna (Magnetic Resonance) í matvælarannsóknum í heiminum í dag, saman ásamt þátttakendum frá matvælaiðnaði og fleirum. Að þessu sinni verður lögð áhersla á notkun þessarar tækni í fiski- og kjötrannsóknum og hvernig nýta megi tæknina í framleiðsluferlum matvæla almennt.

Þó svo að kjarn- og rafeindaspunarannsóknir séu ekki nýjar af nálinni hefur tæknin aðeins verið notuð við matvælarannsóknir í takmörkuðum mæli hér á landi til þessa. Með því að halda ráðstefnuna hér á Íslandi er leitast við að kynna þá miklu möguleika og kosti sem þessi tækni býr yfir fyrir íslenskum rannsóknamönnum og matvælaiðnaði og dýpka þannig skilning íslensks matvælaiðnaðar og rannsóknamanna á hegðun og þeim breytingar sem matvæli verða fyrir í framleiðsluferlum sínum.

Erindi sem flutt verða á ráðstefnunni verða einnig birt í formi vísindagreina í glæsilegu ráðstefnuriti, sem dreift verður til allra þátttakenda. Ritið er gefið út af the Royal Society of Chemistry í Bretlandi. Einnig verða öll veggspjöld sem kynnt verða á ráðstefnunni birt á heimasíðu hennar að ráðstefnunni lokinni.

Þess má geta að síðast þegar ráðstefnan var haldin, sem var í Nottingham í Englandi í júlí 2006, var Maríu boðið að flytja fyrirlestur um verkefnið “Low field NMR study of the state of water at superchilling and freezing temperatures and the effect of salt on freezing processes of water in cod mince” sem hún kynnti á veggspjaldi og var valið eitt af fjórum áhugaverðustu veggspjöldum ráðstefnunar.

Frekari upplýsingar um dagskrá og erindi ráðstefnunnar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar www.matis.is/mrinfood2008 Tekið er við skráningum og fyrirspurnum á netfangið mrinfood2008@matis.is eða í síma 422 5091 (María Guðjónsdóttir).   

Ráðstefnan er styrkt af Matís ohf., Háskóla Íslands, Nordic Marine Academy, Bruker Optics, Stelar, Woodhouse Publishing og Royal Society of Chemistry í Bretlandi.