Fréttir

Rétt vara á réttan markað

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

QualiFish er norrænt samstarfsverkefni sem hefur það að markmiði að auka á þekkingu og þróa aðferðir, ferla og tækni sem stuðlað geti að enn frekari sjálfbærni og arðsemi veiða og vinnslu bolfiskafurða úr N-Atlantshafi.

Verkefnið sem hófst á vormánuðum er stýrt af norsku rannsóknarstofnuninni SINTEF og fjármagnað af Norska Rannsóknarráðinu (NRC). Auk Matís koma að QualiFish verkefninu þverfaglegur hópur sem samanstendur af útgerðum, fiskvinnslum, dreifingar- og markaðsfyrirtækjum, tækjaframleiðendum og rannsóknaraðilum.. Verkefninu er ætlað að rannsaka og þróa aðferðir sem framleiðendur geta nýtt sér til að mæta þörfum markaða með hágæða vörum allt árið um kring, en helstu áherslur verkefnisins eru meðal annars gæði, matvælaöryggi, tæknilausnir í vinnsluferlum og bestun í framleiðslu með tilliti til markaðs- og efnahagslegra sjónarmiða. Verkefnið er skipulagt í fjórum verkþáttum, hver með áherslu á tilteknum viðfangsefnum er viðkoma bolfisksiðnaðinum. Matís fer þar með forystu í verkþætti sem lýtur að því að þróa nýja/endurbæta tækni við uppþíðingu á sjófrystu hráefni; og er þátttakandi í verkþætti sem snýr að því að þróa nýja markaðsmiðaða tækni fyrir aðgreiningu á hráefni og afurðum, sem tryggir „rétta vöru á réttan markað“.

Nánari upplýsingar veitir Magnea G. Karlsdottir, fagstjóri hjá Matís en einnig má finna upplýsingar um verkefnið á heimasíðu QualiFish (www.qualifish.no).