Fréttir

Rýrnun á fiski í gámum lítil

„Í rannsóknum okkar á rýrnun á fiski í gámum hafa komið fram fremur lágar tölur. Langt undir 10%. Þegar þessi útflutningur var hvað mestur 1986, mældum við þetta í nokkrum tilfellum. Þá kom í ljós að rýrnun í þorski var 1 til 2%. Síðan var gerð mun ítarlegri tilraun fyrir um einu og hálfu ári. Þá fluttum við fiskinn ekki út, en líktum eftir slíkum innflutningi á rannsóknastofu okkar. Þá kom í ljós að þetta var um 2 til 4% í þorski og eitthvað aðeins minna í ufsa,“ segir Sigurjón Arason, verkefnastjóri hjá Matís í samtali við Morgunblaðið, 13. febrúar.

„Loks var þetta skoðað mjög vandlega fyrir um ári síðan. Þá kom í ljós að rýrnun í þorski var um 2,4%, en ef fiskurinn var umísaður hér fyrir útflutning fór rýrnunin upp í 3,6%. Rýrnunin í ýsunni var um 4,8% en við umísun fóru hún upp í 7%. Allt hnjask eftir að gengið hefur verið frá fiskinum ísuðum í kör í fyrsta sinn eykur vökvatapið. Við eigum einnig gamlar mælingar á vökvatapi í fiski, sem hefur verið fluttur milli landshluta við erfið skilyrði. Við athuguðum rýrnunina eftir aldri, fjögurra til sjö daga frá veiðum. Þá kom í ljós að eftir því sem hráefnið var eldra, tapaðist meira við flutningana. Síðan þessar mælingar voru gerðar, hafa orðið miklar vegabætur og því er vökvatapið vafalítið minna nú,“ segir Sigurjón

IS