Fréttir

Það besta frá Norðurlöndunum í Reykjavík í næstu viku!

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dagana 17.–24. febrúar verður haldin matarhátíð í Norræna húsinu í Reykjavík. Hátíðin ber yfirskriftina Ný norræn matarhátíð og þar kemur Matís nokkuð við sögu.

Hér á Matísvefnum var í ágúst á síðasta ári greint frá sérstakri samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist” og er ætlað að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda. Einnig var sagt frá því að skipaður hefði verið sérstakur stýrihópur til að vinna að áætluninni. Í honum sitja fyrir hönd Íslands Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá Ferðamáladeild Hólaskóla, Háskólans á Hólum.

Í hverju landi voru einnig tilnefndir “sendiherrar” sem fengu það verkefni að miðla þekkingu og vekja athygli á norrænni matargerð. Sendiherrarnir vinna að kynningum á norrænni matargerð og menningu. Íslensku sendiherrarnir eru Sigurður Hall og Baldvin Jónsson. Núna er sumsé komið að því að kynna þetta merkilega framtak fyrir Íslendingum.

Hátíðin hefst sunnudaginn 17. febrúar og stendur yfir í viku og óhætt er að segja að dagskráin er hin glæsilegasta eins og sjá má í dagskrá hátíðarinnar!