Fréttir

Samkeppni um bestu viðskiptahugmyndirnar í matvæla- og líftækniiðnaði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís og Landsbankinn hafa komið á fót nýsköpunarkeppni fyrir viðskiptahugmyndir í matvæla- og líftækniiðnaði sem byggjast skulu á íslensku hráefni eða hugviti.

Samkeppninni er ætlað að hvetja til uppbyggingar fyrirtækja og þróunar verkefna í matvæla- og líftækniiðnaði með það að markmiði að auka varanlega verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi. Samkeppnin ber yfirskriftina „Þetta er eitthvað annað“ og vísar til umræðu um nýjungar í atvinnulífi sem oft lýkur á þann hátt að „gera eigi eitthvað annað“, eða þess óskilgreinda sem margir tala um en hafa ekki nafn yfir. Í þessari samkeppni gefst tækifæri til að leggja fram hugmyndir um „eitthvað annað“.

Landsbankinn og Matís sameina krafta sína með það að markmiði að gefa hugmyndunum líf. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði matvæla- og líftækni þar sem áhersla er lögð á nýsköpun, verðmætaaukningu og matvælaöryggi. Landsbankinn hefur lagt áherslu á að vera hreyfiafl í samfélaginu og veita stuðning og ráðgjöf á sviði nýsköpunar í atvinnulífi og menntakerfi.

 
Frá undirritun samstarfssamnings Landsbankans og Matís. Frá vinstri: Helgi Teitur Helgason framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs, Sveinn Margeirsson forstjóri Matís og Þorsteinn Stefánsson útibússtjóri Landsbankans í Grafarholti.

Peningaverðlaun og mikilvægur stuðningur

Veitt verða peningaverðlaun fyrir bestu hugmyndina auk þess sem Matís veitir þeim sem hlutskarpastir verða mikilvæga tæknilega ráðgjöf og aðstöðu. Höfundar nokkurra annarra framúrskarandi viðskiptahugmynda munu einnig fá tækifæri til að fræðast nánar um þróunar- og framleiðsluferla í matvæla- og líftækniiðnaði sem og áætlanagerð og tilhögun kynninga fyrir fjárfesta.

Þegar hefur verið auglýst eftir umsóknum og er umsóknarfrestur til og með mánudagsins 2. september. Allar hugmyndir á sviði matvæla- og líftækni sem eiga erindi á  markað og byggja á íslensku hráefni eru gjaldgengnar í samkeppnina.

Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði Matís, www.matis.is/nyskopun, og Landsbankans, www.landsbankinn.is.