Fréttir

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra undirritar þjónustusamning við Matís til þriggja ára

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Matís hafa undirritað tvo nýja samninga, þjónustusamning til að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna og samning um eflingu starfsemi Matís á landsbyggðinni.

„Með samningunum felum við Matís að sinna uppbyggingu á starfsemi sinni á landsbyggðinni í takt við þá stefnu sem við höfum markað okkur um að fjölga störfum og auka verðmætasköpun á landsbyggðinni,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. „Með nýjum þjónustusamningi er settur skýr rammi utan um það mikilvæga verkefni að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna. Samningurinn er nú í fyrsta sinn gerður til þriggja ára til að auka stöðugleika. Matís sinnir lykilhlutverki í matvælaöryggi landsins og mikilvægt er að tryggja þeirri starfsemi öruggan og fyrirsjáanlegan rekstrargrundvöll.“

Uppbygging á landsbyggðinni í samræmi við stefnumótun ráðherra

Með samningi um eflingu þjónustu Matís á landsbyggðinni fær Matís 80 milljónir króna á tveggja ára tímabili til að styrkja starfsemi sína og auka samvinnu við atvinnugreinar í þróunar og rannsóknarstarfi.

„Með þessu mun Matís geta skapað tækifæri til aukins samstarfs við fyrirtæki, stofnanir og menntastofnanir. Við stefnum á að a.m.k. 10% starfsgilda Matís verði á landsbyggðinni,“ segir Oddur M. Gunnarsson forstjóri Matís, en þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar.

Markmið samningsins er meðal annars að færa starfsemi Matís nær viðskiptavinum og bæta verðmætasköpun til framtíðar með aukinni nýsköpun, rannsóknar- og þróunarvinnu.

Þjónustusamningur til þriggja ára

Ráðherra undirritaði einnig þriggja ára þjónustusamning um rannsóknir, rekstur tilvísunarrannsóknarstofu og öryggis- og forgangsþjónustu á sviði matvæla. Markmið samningsins er að tryggja öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna. Í samningnum er jafnframt kveðið á um hlutverk Matís á sviði rannsókna sem auka verðmæti íslenskrar matvælaframleiðslu og stuðla að öryggi og heilnæmi hennar.

Með samningnum tryggir Matís aðgengi að öryggisþjónustu rannsóknarstofu og lágmarks viðbragðstíma við óvæntar uppákomur sem geta ógnað matvælaöryggi og heilsu neytenda. Þá sér Matís til þess að nauðsynlegir rannsóknarinnviðir séu til staðar svo hægt sé að fara með öflugt matvælaeftirlit.

„Samningurinn er í samræmi við þau markmið um að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum afurðum úr sjó og af landi auk þess að stuðla að aukinni nýsköpun í virðiskeðju íslenskrar matvælaframleiðslu,“ segir ráðherra. 

IS