Fréttir

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefur út reglugerð um kælingu fisks og annarra matvæla

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fiskur er með allra viðkvæmustu matvælum og því lögð mikil áhersla á að varðveita ferskleika hans og forðast skemmdir. Óumdeilt er mikilvægi þess að að kæla fisk vandlega strax eftir að hann er veiddur.

Matvælalöggjöfin hefur að geyma margvísleg ákvæði um kælingu fiskjar og annarra matvæla. Í henni er kveðið skýrt á um að halda beri órofinni kælikeðju frá veiðum, til og við vinnslu matvæla og þau kæld eins fljótt og auðið er.

Kannanir hér á landi hafa leitt í ljós að kæling landaðs botnfiskafla er ónóg í mörgum tilvikum og mörg dæmi þess að fiski sé landað illa ísuðum eða jafnvel óísuðum. Á þetta einkum við um afla úr veiðiferðum sem vara skemur en 24 klukkustundir.  Þá er of  algengt að fiskur sem geymdur er utandyra sé ekki varinn fyrir sól og utanaðkomandi mengun eins og góðir framleiðsluhættir kveða á um.

Því hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefið út reglugerð til þess að taka af öll tvímæli um það hvaða reglur gilda í þessum efnum.  Reglugerðin tekur ekki gildi fyrr en 1. september 2012 til þess að gefa þeim aðilum sem eru vanbúnir að fylgja ákvæðum hennar svigrúm til þess að koma sér upp nauðsynlegum búnaði í samræmi við það sem reglugerðin kveður á um.

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 104/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, auk áorðinna breytinga.


Fréttin birtist fyrst á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðaráðuneytis, www.sjavarutvegsraduneyti.is.