Fréttir

Snjallmerki á matvælum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Verkefnið skiptist upp í sex verkþætti þ.e. 1) Verkefnastjórnun, 2) greining á þeim snjallmerkjum sem eru á markaði og notkun þeirra í matvælaiðnaði, 3) greining á þörfum og væntingum neytenda og annarra hagaðila til snjallmerkja, 4) greining á, og tillögur að, nýjum þjónustutækifærum sem tengjast snjallmerkjum. Þar sem 19 útfærslur á bættri þjónustu voru kynntar, 5) prófanir á útvöldum lausnum sem lagðar voru til í fyrri verkþætti, 6) miðlun.

Verkþátturinn sem fjallaði um greiningu á snjallmerkja-tækni og notkun snjallmerkja í virðiskeðjum matvæla snéri að mestu leyti að því að finna og greina útgefið efni um snjallmerki og matvæli. Sjónum var beint að því að finna út hvaða merki séu helst í notkun innan matvælageirans og hversu mikið þau séu nýtt. Þá voru einnig greindir þeirra helstu kostir og gallar. Traust neytenda á merkjunum og þeim skilaboðum sem þau geyma var lykilatriði í greiningunni. Þau snjallmerki sem til umræðu voru í þessum verkþætti voru t.d. merki sem greina hitastig, ferskleika, gas og lífefni, strikamerki, QR kóða og merki sem senda frá sér rafeindaboð (RFID). Í verkþættinum var gerð yfirgripsmikil könnun á útgefnum niðurstöðum rannsóknarverkefna og greinum í fagrímaritum um efnið. Gaf sú greining til kynna að lítið hafi verið rannsakað hvort neytendur treysti yfir höfuð snjallmerkjum, hvort þeir séu áhugasamir um að nýta sér þau eða hvort notkun slíkra merkja skapi virðisauka fyrir framleiðendur. Niðurstöður greiningarinnar benda einnig á að enn séu fyrir hendi tæknilegar hömlur á hvað hægt sé að gera með merkjunum, til að mæta kröfum neytenda og framleiðenda. Niðurstöður þessa verkþáttar verða birtar síðar í ritrýndri vísindagrein.

Verkþátturinn sem snéri að því að meta væntingar og þarfir neytenda og annarra hagaðila til snjallmerkja var yfirgripsmikill. Hann byggði að nokkru leyti á niðurstöðum fyrri verkþáttar, en að auki voru tekin viðtöl við framleiðiendur, byrgja og smásala í níu löndum; svokallaðar fókus-grúppur voru haldnar með neytendum, og netkannanir voru haldnar þar sem yfir 4 þúsund manns svöruðu. Hjá Matís voru haldnar tvær fókus-grúppur sem fjölluðu sérstaklega um snjall merkingar á sjávarfangi. Einnig stóð Matís fyrir netkönnun um sama efni, sem um 500 manns svöruðu. Niðurstöður þessa verkþáttar verða birtar síðar í ritrýndri vísindagrein. Meðal niðurstaðna er að snjallmerki geta aukið virði matvæla og upplifun neytenda, jafnframt því að það er greiðsluvilji fyrir hendi hjá neytendum að borga hærra verð fyrir vörur með snjallmerkjum.

Verkþátturinn sem fjallaði um að koma auga á nýjar þjónustuleiðir sem nýta snjallmerki fór í umfangsmikla SVÓT (Styrkleikar, Veikleikar, Ógnanir og Tækifæri) greiningu á snjallmerkja-tækni í matvælaiðnaði. Í verkþættinum voru 19 leiðir greindar og voru svo þær sem þóttu álitlegastar prófaðar í næsta verkþætti. Sá verkþáttur prófaði fjórar tegundir af snjallmerkjum í for-könnun (e. pre-pilot) í nokkrum virðiskeðjum matvæla. Þau merki sem prófuð voru eru:

· Ferskleikavísir (e. Nitrogen Smart Tag indicator) – Þar sem köfnunarefni myndast í matvælum þegar þau skemmast, þá gefur magn köfnunarefnis vísbendingu um ferskleika. Í þessari snjallmerkjalausn var QR kóði prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við ákveðið magn af köfnunarefni. Neytendur geta því skannað QR kóðann til að sjá ferskleika vörunnar. Hér er hins vegar um þannig lausn að ræða að liturinn breytist þegar magn köfnunarefnis fer yfir ákveðinn þröskuld og því eru núverandi takmörk þessarar lausnar að upplýsingarnar sem fást eru bara ferskur eða ekki (allt eftir því hvar þessi þröskuldur er settur. Frekari þróun á þessari lausn mun því snúa það því að staðsetja ferskleikann enn frekar á einhverskonar skala. Þessi ferskleikavísir var prófaður hjá Matís hér á Íslandi, AZTI á Spáni og KU Leuven í Belgíu á mismunandi matvælum. Hér á Íslandi voru gerðar prófanir með ferskan fisk, sem lofuðu góðu. Það er því líklegt að farið verði í frekari þróun og nýsköpun á þessari lausn hjá Matís og samstarfsaðilum í framtíðinni.

Ferskleikavísir prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við köfnunarefni.

· Hitastigsvaki (e. NFC Smart Tag Temperature logger) – lítið snjallmerki sem límt er á umbúðir til að fylgjast með hitastigi. Neytendur eða aðrir hagaðilar í virðiskeðjum matvæla geta þá tengst merkinu gegnum farsíma og séð hitastigsferilinn. Það var reyndar mat þátttakenda í verkefninu að þessi lausn væri síður áhugaverð fyrir almenna neytendur, en þeim mun mikilvægari fyrir framleiðendur, flutningsaðila, smásala og aðra með sérfræðiþekkingu til að meta áhrif hitastigs á gæði og geymsluþol matvæla. Hitastigsvakinn var prófaður hjá Matís á Íslandi og VTT í Finnlandi.

Hitatigsvakinn er límiði sem festist á matvælaumbúðir og safnar gögnum um hitastig.

· Súrefnisvísir (e. Oxygen Smart Tag indicator) virkar svipað og ferskleikavísirinn, þar sem hann er prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við súrefni. Þessi lausn virkar vel á matvæli sem eru í lofttæmdum eða loftskiptum umbúðum, þar sem súrefnisvísirinn sýnir þá hvort umbúðirnar „leki“ eða ekki. Súrefnisvísirinn var prófaður hjá AZTI á Spáni og KU Leuven í Belgíu. 

Súrefnisvísir prentaður með bleki sem breytir um lit þegar hann kemst í samband við súrefni.

· Tappa-merki (e. ‘Wine Cap’ Tag) eru merki sem fest eru á tappa vínflaska. Þau senda frá sér rafeindamerki sem snjallsímar geta móttekið og þannig fengið ýmisskonar upplýsingar um flöskuna s.s. hvar vínið var ræktað, gæðaprófanir og upplýsingar um pörun við matvæli. Merkið er einnig með innbyggðan hitamæli sem lætur vita hvenær vínið er að réttu hitastigi til neyslu. Þetta merki var prófað af Háskólanum í Reading. 

Tappa-merkið sendir frá sér rafeindamerki sem snjallsímar geta móttekið.

Verkefnið Snjallmerki var skilgreint sem miðlunarverkefni, þar sem meginmarkmiðið var að safna og miðla þekkingu um snjallmerki. Óhætt er að fullyrða að þeim markmiðum hafi verið náð, þar sem um 6.500 manns höfðu beint innlegg í verkefnið í gegnum viðtöl, fókus grúppur og neytendakannanir, auk þess sem yfir 60 þúsund manns hafa heimsótt netsíður með upplýsingum frá verkefninu.

Þó svo að þessu verkefni sé nú lokið, þá er ljóst að frekari rannsóknir og nýsköpun mun fara fram á þessu sviði. Þátttakendur í verkefninu eru því þakklátir fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna að þessu mjög svo spennandi verkefni og munu án efa halda því starfi áfram.

Að SmartTag verkefninu komu átta fyrirtæki og stofnanir, en verkefnið var fjármagnað af EIT food.