Fréttir

Strandbúnaður 2018

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Spennandi ráðstefna um málefni þörungaræktar, fiskeldis og skelræktar fer fram dagana 19. og 20. mars undir yfirskriftinni Strandbúnaður 2018.

Miklar áskoranir blasa við Íslend­ing­um eins og öðrum jarðarbúum, matvælaframleiðsla til framtíðar er þar á meðal. Þeim fjölgar sem veita því athygli að innan við 5% af heildarmatvæla- og fóðurframleiðslu heimsins kemur úr höfum og vötnum, þó svo þau þeki um 70% af yfirborði jarðarinnar. Því er vert að horfa til þess að nýta vatn betur til matvælaframleiðslu og þar kemur strandbúnaður sterkur inn, þannig spilast saman sjötta heimsmarkmiðið –  hreint vatn og salernisaðstaða  – og það fjórtánda –  líf í vatni  – við annað heimsmarkmiðið –  ekkert hungur. Atvinnugreinar sem byggjast á hagnýtingu auðlinda á og við strendur landsins geta sannarlega liðkað til við lausn þeirra áskorana sem við okkur blasa. Fæðuöryggi heimsins getur styrkst með hinni svokölluðu bláu byltingu – fæðuframframleiðslunni – í vatni – þ.m.t. við ströndina.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að færa hugtakið aquaculture yfir í íslenskan búning. Fiskeldi fjallar fyrst og fremst um ræktun fiska, eldi á skeldýrum eða ræktun og nytjar þörunga falla þar ekki undir. Lagareldi vísar til eldis í vökva, það hugtak hefur ekki leyst landfestar. Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/​eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða, rétt eins og landbúnaður vísar til þess að yrkja jörðina, rækta dýrategundir og hafa nytjar af því sem dýrin gefa af sér. Merkja mátti á fyrstu ráðstefn­unni, fyrir ári, að nafnið strandbúnaður gæti fest í sessi.

Mikilvægt er að fyrir hendi sé opinn vettvangur fyrir faglega og fræðandi rökræðu um brýnustu og mikilvægustu úrlausnarefnin fyrir atvinnugreinarnar sem hagnýta auðlindir og gæði á, við og fyrir ströndum landsins. Atvinnu­greinarnar sem umræðir eru fiskeldi, þörungaræktun og skelræktun. Hagaðilar hafa tækifæri til að ráða ráðum sínum á ráðstefnunni Strandbúnaður 2018 sem fram fer á Grand Hótel dagana 19. og 20. mars nk. Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála mun setja ráðstefnuna. Strandbúnaður 2018 er öllum opinn, þar verður rætt sérstaklega um, á skilgreindum málstofum; siðferði, velferð, möguleika til landeldis á laxi, hvort laxalús sé „upprennandi“ vandamál, örlög íslenskrar skelræktar í ljósi samkeppni við lifandi innflutta skel, nýtingu smáþörunga sem byltingu í framleiðslu lífrænna efna og að eldi sé meira en lax. Á meðal málstofanna er uppskeruhátíð rannsókna og að lokum verður rætt um heilbrigði í strandbúnaði með undirtitlinum verk og vitundarvakning.

Í öllu ræktunarstarfi þar sem maðurinn nýtir land- eða hafsvæði sér til hagsbóta geta vaknað spurningar um hvað sé siðferðislega rétt að ganga langt með tilliti til umhverfis, siðferðis og ekki síst velferðar lífveranna sem aldar eru. Þessar vangaveltur eiga rétt á sér í tengslum við þær atvinnugreinar sem falla undir strandbúnað sem og aðrar greinar þar sem lífverur eru ræktaðar til manneldis. Ráðstefnum Strandbúnaðar er ætlað að vera vettvangur uppbyggilegra umræðna um atvinnugreinarnar og í opnunarmálstofunni gefst tækifæri til að ræða þessi álitamál. Þar verður fjallað um efnistökin út frá sjónarhóli siðfræðinnar, friðunar landsvæða, möguleg víti til varnaðar verða skoðuð og horft til mögulegra fyrirbyggjandi aðgerða.

Í ljósi þess að rannsók­ir leggja af mörkum þekkingu sem styður við atvinnuuppbyggingu er sérstök málstofa helguð afrakstri rannsókna og þróunar sem m.a. hefur verið fjármögnuð af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Umhverfissjóði sjókvíaeldis, Tækniþróunarsjóði, norrænum sjóðum, evrópskum sjóðum og hagaðilum. Þar verða nokkur dæmi þess hvernig ný þekking hefur verið hagnýtt í þágu íslensks atvinnulífs til verðmætasköpunar í strandbúnaði reifuð og jafnframt gefin dæmi um sóknartækifæri á því sviði. Mikilvægt er að vel takist til við innleiðingu nýrrar þekkingar í rekstri fyrirtækja svo hámarka megi áhrif fjárfestingarinnar sem lögð hefur verið í rannsókna-, nýsköpunar- og þróunarvinnuna.

Í málstofunni um heilbrigði strandbúnaðar verður m.a. fjallað um; hverjar eru stærstu áskoranirnar, hvar og hvað má gera betur og hvaða nýjung­ar má sækja í reynslubanka nágranna okkar til þess að nýta þær aðstæður sem eru taldar hagfelldar til að auka framleiðslu matar frá fiskeldi og öðrum strandtengdum greinum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2018