Fréttir

Styttist í Strandbúnað 2017

Ráðstefnan Strandbúnaður 2017 verður haldin á Grand Hótel 13. og 14. mars n.k. Heiti ráðstefnunar vísar til þess að Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða. Tilgangurinn er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir, þróun og stefnumótun atvinnugreinanna sem hagnýta land og eða sjávar gæði við strandlengju landsins

Á ráðstefnunni verður sérstaklega vikið að mikilvægi menntunar fyrir atvinnugrein í vexti. Ein af átta málstofum ráðstefnunnar ber heitið Menntun í Strandbúnaði. Enda eru þekking og færni meðal mikilvægustu grunnþátta sem huga þarf að og hagnýta má við uppbyggingu á nýjum atvinnugreinum.

Strandbúnaður er atvinnugrein sem vex og dafnar með hagnýtingu þekkingar fjölmargra fræðasviða. Mikilvægt er að þekkingu sé miðlað á skilvirkan hátt til atvinnulífs og samfélags svo hagnýting hennar verði sem best. Menntun einstaklinga til fjölbreyttra starfa tengdum strandbúnaði er lykill að aukinni samkeppnishæfni greinarinnar. Í málstofunni verður framboð menntunar í strandbúnaði á Íslandi kynnt, óskir atvinnugreinarinnar um frekari þróun hennar ræddar sem og væntingar og viðhorf einstaklinga til náms og starfsumhverfis. 

Erindi á málstofunni um menntun í Strandbúnaði koma frá ArnarlaxiKeynaturaArctic FishHáskólanum á HólumHáskólanum á Akureyri og Háskólasetri Vestfjarða. Þessir aðilar eru taldir mjög hæfir til að fjalla um stöðu og framtíðarsýn menntunar í fiskeldi, samspil menntunar og þróunar strandbúnaðar og þátt menntunar í fiskeldi í styrkingu strandbyggða. 

Á öðrum sviðum Strandbúnaðar má nefna nokkur dæmi um einkaráhugaverð umræðuefni. Ræktun bláskeljar og þá sérstaklega heilnæmi íslenskrar bláskeljar er nokkuð sem er vert að draga fram í dagsljósið. Þörungarækt og nýting þörunga og þá sérstaklega m.t.t. vinnslu og vöruþróunarmöguleika. Í umræðu um framtíð laxeldis verður farið yfir þátt fóðurframleiðslu og fóðurþróunar með tilliti til umhverfisins.

Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig til þátttöku á ráðstefnunni hér.

IS