Fréttir

Sykursýkishamlandi virkni í bóluþangi – MSc. fyrirlestur í næringarfræði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Margrét Eva Ásgeirsdóttir heldur fyrirlestur um sykursýkishamlandi virkni í bóluþangi (Fucus vesiculosus) og furutrjáberki sem könnuð var með notkun 3T3-L1 fitufrumumódels. Fyrirlesturinn fer fram í Verinun, Vísindagörðum sem staðsettir eru á Sauðárkróki. Hægt er að fylgjast með fyrirlestrinum í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12, fimmtudaginn 4. febrúar kl. 10:00-11:00 (salur: Esja-311).

Markmiðið var að kanna áhrif útdrátta úr bóluþangi og furutrjáberki á fituuppsöfnun í 3T3-L1 fitufrumumódeli, hindrandi áhrif þeirra gegn α-glucosidase ásamt andoxunarvirkni.

Þrír þangútdrættir hindruðu fituuppsöfnun í 3T3-L1 frumunum án þess að hafa áhrif á lifun þeirra og sýndi F. vesiculosus vatnsútdráttur bestu virknina með 35% hindrun í styrkleika 0,1 mg/mL. F. Vesiculosus sýruútdráttur sýndi einnig góða virkni með 19% hindrun í sama styrkleika. Þá höfðu bæði þang- og furutrjábarkar útdrættir sterka andoxunarvirkni svo og hindrunarvirkni gegn α-glucosidase. Furutrjábörkurinn hafði mestu andoxunarvirknina í ORAC með 2869 µmol TE/g og sami útdráttur hafði góða hindrunarvirkni gegn α-glucosidase með 1,3 µg/mL IC50 gildi.

Frekari rannsókna er þörf til að bera kennsl á þá ferla sem hindra fituupp-söfnunina. Einnig geta in vivo rannsóknir veitt upplýsingar um hvort þessara áhrifa gæti einnig í lifandi verum. Þetta gæti leitt til þróunar og framleiðslu á fæðubótarefni sem hægt væri að nota til að koma í veg fyrir offitu og þá efnaskiptasjúkdóma sem henni tengjast.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.

Leiðbeinendur: dr. Eva Küttner , dr. Hörður G. Kristinsson og dr. Björn Viðar Aðalbjörnsson

Prófdómari: dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir