Fréttir

Tækifæri í sjávarútvegi eru óþrjótandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í viðhafnarútgáfu Ægis sem kom út í tilefni 100 ára fullveldis Íslands var rætt ítarlega við Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís og prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands um starfsferilinn. Hér fylgja nokkra glefsur úr viðtalinu.

Sigurjón hóf að leggja hönd á plóg í frystihúsinu á Norðfirði 10 ára gamall og reyndi Sigurjón fyrir sér í sjómennsku með föður sínum á unglingsárunum á Hornafirði og það var upptakturinn að námi tengdu fiskiðnaði.

„Alveg frá því ég var á bátnum á Hornafirði forðum hefur það verið mitt mottó að allt sem við veiðum eigi að meðhöndla rétt og vel. Fiskur er viðkvæmt hráefni og vandmeðfarið,“ segir Sigurjón.

Á háskólaárum sínum vann Sigurjón á sumrin hjá Fiskmati ríkisins og fór m.a. milli allra frystihúsa á Íslandi, 1972-1974, sem þá voru á annað hundrað talsins, til að fylgjast með hvernig hreinlæti væri háttað. Tilgangurinn var að undirbúa nýtt regluverk á þessu sviði, svokallaða Rauðu handbók, og uppfylla með því staðla að kröfu fiskkaupenda í Bandaríkjunum.

Að loknu háskólanámi, fyrst í efnafræði frá Háskóla Íslands og síðan vinnsluferlaverkfræði í Kaupmannahafnarháskóla (DTU) réðst Sigurjón til Atlas Sabroe.

Í septemberlok 1978 var Sigurjóni boðið að koma heim og taka við stöðu deildarstjóra tæknideildar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Hann tók tilboðinu. Strax á fyrstu mánuðunum fór hann að kenna fiskiðnaðartækni og matvælaverkfræði við Háskóla Íslands þannig og frá þessum tíma hefur hann kennt við bæði Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Sem kunnugt er sameinaðist Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins inn í Matís á sínum tíma en rauður þráður í daglegum verkefnum Sigurjóns og samstarfsmanna hefur alla tíð verið að bæta vinnsluferla og auka verðmæti sjávarfangs.

Byggist allt á sömu fræðunum í grunninn

„Eitt af því sem við unnum að á þessum tíma var kæling á kolmunna niður í mínus eina gráðu, ofurkæling, til að stöðva niðurbrot. Kolmunnaveiðin lagðist svo af stuttu síðar en þekkingin nýttist okkur aftur fyrir fáum árum þegar makríll fór að veiðast hér við land í lögsögunni að sumarlagi. Þá tókst okkur að þróa tækni sem gerði að verkum að hægt var að skapa mikil verðmæti úr makrílnum þó hann væri ekki á hentugasta skeiði til vinnslu. En til viðbótar við þekkingu sem byggst hefur upp á vinnslutækninni þá hefur kælitækninni líka fleygt fram með árunum og skapað grundvöll til að bæta hráefnisgæðin,“ segir Sigurjón.

„Við erum þannig alltaf að hamra sömu fræðin í grunninn og nýta okkur þau í t.d. rannsóknum og nemendaverkefnum sem aftur skila sé með beinum hætti inn í greinina.“

Gæðahugsun í sjávarútvegi er nokkuð almenn í greininni í dag en við þurfum samt alltaf að skerpa á henni og vera meðvituð um atriði sem þarf að laga, t.d. hvað varðar meðferð fisks, ísun, blæðingu og fleira.“

Óþrjótandi tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar

Með styttingu veiðiferða skipanna segir Sigurjón að hafi skapast grunnur að framleiðslu og útflutningi á ferskum fiski sem síðan hefur orðið snar þáttur í botnfiskvinnslunni hér á landi síðari ár.

„Þróunin í hvíta fiskinum hefur verið mjög hröð og við erum komin langt. En samt eru óþrjótandi tækifæri til að gera betur og mín skilaboð til stjórnvalda eru að spýta á ný í lófana hvað varðar framlög í AVS rannsóknasjóð um aukið verðmæti sjávarfangs, sem hefur verið fjársveltur undanfarin ár. Fyrirtækin í greininni sjá að leiðin til að nýta tækifærin og möguleikana byggist á þekkingu og rannsóknum. Þann grunn verður því að treysta.“

Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson/HÍ