Fréttir

Þrávirk lífræn efni í íslenska þorskinum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Miðvikudaginn 1. júní heldur Vordís Baldursdóttir meistaravörn sína á sviði líftækni. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu M101 á Sólborg.

Meistaravörn við Auðlindadeild Viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Miðvikudaginn 1. júní heldur Vordís Baldursdóttir meistaravörn  sína á sviði líftækni. Vörnin fer fram kl. 10:00 og verður í stofu M101 á Sólborg. Verkefni Vordísar ber heitið: „Occurrence of different persistent organic pollutants in Atlantic cod (Gadus morhua L.) in Icelandic waters”.

Verkefni Vordísar var samstarfsverkefni Matís ohf., Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.

Verkefnið var hluti af verkefninu, „Grandskoðum þann Gula frá miðum í maga – rannsókn á þáttum sem hafa áhrif á verðmæti þorskafla“, sem m.a. var styrkt af AVS Rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Meistaranám Vordísar var ennfremur styrkt af Matís ohf. og BYR Sparisjóði.

Í ritgerðinni fjallar Vordís um þrávirk lífræn efni í íslenska þorskinum. Skoðað var magn og breytileiki þrávirkra lífrænna efna og hvort þættir á borð við kyn, aldur, kynþroska, fiskimið og árstíma hefðu áhrif á magn efnanna. Einnig hvort þær mæliaðferðir sem þróaðar hafa verið á tækjabúnað Matís ohf. á Akureyri til mælinga á þrávirkum lífrænum efnum í fiskafurðum væru sambærilegar við þær aðferðir sem beitt er annarsstaðar. Mæld voru nokkur þrávirk lífræn efni í holdi 64 þorska og lifrum 38 þeirra. Lítið magn þrávirkra lífrænna efna greindist í þorskinum. Magn sem mældist í lifrum var u.þ.b. 300 sinnum meira en í holdi, en efnin fylgja fitunni og þorskvöðvi er afar fitulítill. Sú mæliaðferð sem notast var við stenst fullkomlega samanburð við þær aðferðir sem verið er að nota annarsstaðar, og virðist aðferðin ennfremur  nýtanleg til að greina sömu efni í kjúklingi.

Vordís Baldursdóttir lauk bakkalár (B.Sc) prófi í líftækni frá Háskólanum á Akureyri árið 2008 og hóf störf sem sérfræðingur hjá Matís ohf. vorið 2010. Hún hefur unnið að rannsóknavinnunni og ritgerðarskrifum síðustu þrjú ár.

Aðalleiðbeinandi var Dr. Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri eiturefnadeildar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Meðleiðbeinendur voru Dr. Rannveig Björnsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri Matís ohf. svo og Dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri Matís ohf. og Dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, verkefnastjóri  Matís ohf., sem jafnframt voru umsjónaraðilar verkefnisins.

Andmælandi er Dr. Stefán Einarsson, sérfræðingur um loftslagsmál og hnattræn mengunarmál hjá Umhverfisráðuneytinu. Stefán hefur m.a. starfað við þróun aðferða fyrir greiningar á þrávirkum lífrænum efnum og tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi vegna Stokkhólmssamningsins um þrávirk lífræn efni, m.a. við að semja leiðbeiningar um bestu fáanlega tækni til að takmarka losun þrávirkra lífrænna efna út í umhverfið.