Fréttir

Transfita og transfitusýrur

Transfitusýrur er hugtak sem notað er yfir ákveðna tegund af harðri fitu. Þessi transfita eða transfitusýrur eru þó ólíkar náttúrulegri harðri fitu, s.s. eins og finna má í kókoshnetum, að því leyti að þær myndast þegar mjúkri fitu, svokallaðri ómettaðri fitu, er breytt í matvælaiðnaði (fitan er hert).

Transfitusýrur í matvælaframleiðslu
En ef stór hluti transfitu er í fæðunni okkar vegna matvælaiðnaðarins er þá ekki auðvelt að breyta þessu og minnka neyslu á transfitu? Málið er ekki svo einfalt. Áður en til notkunar á transfitu kom í matvælaiðnaði voru framleiðendur að nota harða fitu við framleiðslu en neysla á harðri fitu hefur neikvæð áhrif á heilsu manna. Í leit sinni að „hollari” kosti fóru framleiðendur að líta til mýkri fitu en að mörgu leyti er hún ekki hentug til matvælaframleiðslu þar sem hún m.a. þránar fyrr en harða fitan og því styttist geymsluþol vöru sem framleidd er með mjúkri fitu. Í viðleitni sinn til að bæta eiginleika mjúku og „hollari” fitunnar fóru framleiðendur að breyta byggingu hennar. Mjúka fitan, oftast jurtafita, er hert að hluta, þ.e.a.s. gerð að harðari fitu og við þessa breytingu öðlast hún ákveðna eiginleika sem m.a. lýsa sér í lengra geymsluþoli. Fjárhagslega var þessi breyting því til batnaðar fyrir fyrirtækin enda er lengra geymsluþol ávísun á að minna er fleygt af mat.

Skaðsemi transfitusýra
Almennar ráðleggingar Lýðheilsustöðvar eru að minnka neyslu á harðri fitu og skiptir þá ekki máli hvort um sé að ræða transfitusýrur eða mettaða fitu. Frekar ætti að velja fitu sem er mjúk, þ.e.a.s. á fljótandi eða mjúku formi við stofuhita. Eftir sem áður hefur neysla á mjúkri fitu sem hefur verið hert að hluta, þ.e. transfitu, aukist mjög á síðustu áratugum. Neysla á matvælum sem innihalda transfitusýrur eykur líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Áhrifa neyslu á transfitusýrum gætir m.a. í því að LDL-kólesteról hækkar (slæma kólesterólið) og HDL-kólesterólið lækkar (góða kólesterólið). Neysla á matvælum sem innihalda transfitusýrur er því óæskileg og í raun því minna sem við neytum af transfitusýrum því betur erum við sett m.t.t. ofangreindra áhættuþátta og sjúkdóma. Framleiðendur matvæla sem og aðrir eru smátt og smátt að gera sér grein fyrir þessari hættu og er bann við notkun olíu sem inniheldur transfitusýrur á veitingastöðum í New York borg sýnilegasta dæmið um breyttan hugsunarhátt þó svo að deila megi um ágæti þessháttar neyslustýringar.

Neysla transfitusýra á Ísland
Íslendingar neyta almennt séð of mikillar fitu og er hörð fita of stór hluti af heildarfituneyslu landans. Því kemur það ekki á óvart að neysla á transfitusýrum sé óhóflega mikil á meðal íslenskra neytenda. Samkvæmt niðurstöðum könnunar frá árinu 2002 á mataræði landsmanna var neysla á transfitusýrum um 3,5 g á dag að meðaltali en þó voru einhverjir hópar, t.d. karlmenn á aldrinum 20-39 ára, sem neyttu mun meira en 3,5 g á dag. Neyslan hafði þá minnkað um nánast þriðjung frá árinu 1990 aðallega vegna minnkandi smjörlíkisneyslu og einnig vegna þess að samsetning smjörlíkis hafði verið breytt á þessum tíma. Þrátt fyrir að neysla Íslendinga á transfitusýrum sé á réttri leið er enn langt í land að við náum undir efri mörk sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett á sem mörk fyrir transfitusýruneyslu einstaklinga (2 g á dag). Lýðheilsustöð vinnur nú að nýrri neyslurannsókn sem mun varpa ljósi á stöðuna hjá Íslendingum eins og hún er í dag.Þess má geta að Danir voru fyrstir til að setja reglur varðandi hámark transfitusýra í tilteknum matvælum. Í Danmörku mega matarolíur, viðbit og smjörlíki ekki innihalda meira en 2 g af transfitusýrum í hverjum 100 g af fitu í vörunni. Ákveðið hefur verið að setja svipaðar reglur hér á landi.

Hvernig getum við komist hjá því að velja matvæli sem innihalda transfitusýrur?

Transfitusýrur má finna í allmörgum tegundum matvæla. Líklegt er að transfitusýrur finnist í smjörlíki, steikingarfeiti, örbylgjupoppi, kartöfluflögum og öðru snakki, sælgæti, kexi, kökum, vínarbrauðum, frönskum kartöflum og öðrum djúpsteiktum skyndibitamat sem og í öðrum matvælum sem hafa verið elduð upp úr olíu sem hefur verið hituð óæskilega mikið.

Merkingum á magni transfitusýra á pakkningum matvæla er verulega ábótavant. Þetta á sérstakleg við um matvæli önnur en þau sem koma frá Bandaríkjunum en þar hafa verið settar nokkuð strangar reglur um merkingu transfitusýra. Neytendur geta þó fylgst með því hvort transfitusýrur séu til staðar í matvælum með því að skoða innihaldslýsingu á umbúðum. Ef á umbúðum stendur „hert fita/jurtafita”, „að hluta til hert jurtaolía”, „partially hydrogenated (vegetable) oil” eða „delvist hærdet fedt/olie” er mjög líklegt að þar megi finna eitthvað af transfitu. Nú er þó hægt að kaupa hráefni sem innihalda fullherta fitu með miklu af mettuðum fitusýrum en engum transfitusýrum.

Nánari upplýsingar veita Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is, og Steinar B. Aðalbjörnsson, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

IS